Erlent

Stefna að sam­fé­lagi án sígarettna

Sylvía Hall skrifar
Nýja-Sjáland ætlar að berjast gegn tóbaksreykingum í landinu af krafti.
Nýja-Sjáland ætlar að berjast gegn tóbaksreykingum í landinu af krafti. Getty

Nýja-Sjáland hyggst útrýma tóbaksreykingum í landinu fyrir árið 2025. Aðstoðarheilbrigðisráðherra landsins segir brýnt að vernda komandi kynslóðir fyrir þeim hættum sem fylgja tóbaksreykingum, enda deyi hátt í fimm þúsund Nýsjálendingar ár hvert af völdum tóbaks.

Nokkrar tillögur hafa verið lagðar fram í því skyni að ná settu markmiði, til að mynda hefur verið lagt til að hækka lágmarksaldur þeirra sem mega kaupa tóbak eða minnka leyfilegt magn nikótíns í slíkum vörum samkvæmt frétt Guardian um málið. 

Þá kemur til greina að banna sölu sígarettna og annarra tóbaksvara til allra þeirra sem eru fæddir eftir árið 2004.

Fólk fætt eftir 2004 fær kannski aldrei að kaupa sígaréttupakka, verði tillögunni hrint í framkvæmd. Getty/daniel Bockwoldt

„Við þurfum nýja nálgun,“ sagði aðstoðarheilbrigðisráðherrann Dr. Ayesha Verrall um áætlunina. Í ljósi þess fjölda sem létist á ári hverju eða glímdi við alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar væri ljóst að núverandi tóbaksvarnastefna dygði ekki til.

Fjölmörg heilsuverndarsamtök hafa fagnað boðuðum aðgerðum og lýsti forstjóri krabbameinsfélagsins þar í landi yfir mikilli ánægju með stefnu stjórnvalda.

„Þessi tillaga gengur lengra en bara það að aðstoða fólk við að hætta,“ sagði Lucy Elwood í yfirlýsingu. „Tóbak er skaðlegasta neysluvara sögunnar og það þarf að þurrka hana út.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×