Samtök Navalnís hafa rannsakað spillingu innan ríkisstjórnar Pútíns og skipulagt mótmæli í Rússlandi.
Í yfirlýsingu frá skrifstofu saksóknaranna segir að meðlimir samtakanna reyni að grafa undan Rússlandi og breyta grunni stjórnskipunar þar, undir yfirskini frjálslyndra slagorða. Meðlimir samtakanna eru einnig sakaðir um að reyna að efla til byltingar.
Á umræddum lista má finna hin ýmsu samtök eins og Íslamska ríkið, al-Qaeda og Votta Jehóva, samkvæmt frétt Moscow Times.
Þar segir einnig að stuðningsmenn Navalnís hafi orðið fyrir sífellt meiri þrýstingi í Rússlandi eftir að stjórnarandstæðingurinn sneri heim frá Þýskalandi en þangað var hann fluttur í dái eftir að eitrað var fyrir honum með taugaeitrinu Novichok í Rússlandi síðasta sumar.
Sjá einnig: Fjöldi stjórnarandstæðinga handtekinn í Rússlandi
Navalní var handtekinn við komuna til Rússlands og var hann sakaður um að hafa rofið skilorðsdóm frá 2014 með því að fara til Þýskalands. Í kjölfar handtöku Navalní voru haldin umfangsmikil mótmæli víða um Rússland og voru hundruð mótmælenda handteknir.
Flestir bandamenn Navalnís standa frammi fyrir ákærum vegna mótmælanna eða hafa flúið land, samkvæmt frétt Reuters. Til að mynda var myndatökumaður sem hafði unnið fyrir Navalní dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar í gær fyrir að hafa hvatt til öfgastarfsemi.
Ákærurnar gegn honum byggðu á tístum sem hann skrifaði eftir að rússneskur blaðamaður kveikti í sér. Samkvæmt rússneskum miðlum fór myndatökumaðurinn hörðum orðum um Pútín og nokkra af hans helstu bandamönnum og sakaði þá um að bera ábyrgð á dauða konunnar.
Bandamenn Navalnís segjast ekki efast um að dómskerfið muni verða við beiðni ríkissaksóknara en segjast ætla að halda áfram á friðsaman og skilvirkan hátt.
Versnandi heilsa í fangelsi
Navalní er nú í hungurverkfalli í fangelsi og krefst hann þess að fá aðgang að lækni vegna bakverkja og þess að hann er að missa tilfinningu í fótum. Heilsa hans er sögð hafa versnað töluvert á undanförnum vikum.
Skrifað var á Instagramsíðu hans nýverið að starfsmenn fangelsinsins stefndu á að þvinga mat ofan í hann. Það vill hann ekki og segist hann sannfærður um að hann megi ekki fá heimsókn frá lækni af ótta við að veikindi hans verði rakinn til nýrrar eitrunar.