Innlent

Tugir þurfa í sóttkví vegna smitanna í gær

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Víðir Reynisson.
Víðir Reynisson. Vísir/Vilhelm

Tugir þurfa að fara í sóttkví í tengslum við þau tvö smit covid-19 sem greindust innanlands í gær. Víðir Reynisson minnir á mikilvægi þess að fólk fari í sýnatöku finni það fyrir minnstu einkennum og hvetur atvinnurekendur til að vera duglega til að miðla upplýsingum til erlends starfsfólks um hve auðvelt sé að komast að í sýnatöku.

Smitrakning stendur yfir vegna þeirra tveggja sem greindust með covid-19 í gær og voru utan sóttkvíar. „Undanfarið höfum við yfirleitt endað á að finna einhverjar tengingar á milli þessara smita sem eru að koma utan sóttkvíar við fyrri smit. Við sjáum hvað gerist í dag,“ segir Víðir í samtali við Vísi. „Það tekur alltaf einhverja klukkutíma að ná alveg utan um þetta.“

„Með svona vinnu þá fáum við tengingar og getum fundið út og þó það séu oft bara mjög litlir snertifletir eða mjög lítil tenging sem fólk hefur kannski ekki áttað sig á þegar það er verið að fara í gegnum smitrakninguna,“ segir Víðir. Hann kveðst ekki hafa neinar nánari upplýsingar varðandi smit sem upp kom á leikskólanum Jörfa í Reykjavík.

Smit utan sóttkvíar áhyggjuefni

Þrátt fyrir að heldur fá smit hafi verið að greinast innanlands undanfarna daga segir Víðir áhyggjuefni hve mörg þeirra hafa þó greinst meðal einstaklinga sem ekki voru í sóttkví. „Þetta eru orðin fimm smit núna á stuttum tíma sem eru utan sóttkvíar og það er, eins og við höfum alltaf talað um, áhyggjuefni en smitum auðvitað í heildina er að fara fækkandi og þetta er að ganga ágætlega hjá okkur. Það sem skiptir mestu máli núna er að við hugum vel að okkar persónubundnu sóttvörnum,“ segir Víðir.

„Við skulum bara vera undir það búin að það séu að detta inn eitt og tvö smit og það verða einhver smit utan sóttkvíar og það sem við getum öll gert í því er bara að huga að okkar málum, reynt að halda áfram að koma lífinu okkar í eðlilegt horf á sama tíma og við erum að vinna með þessa einföldu hluti sem við erum alltaf að tala um,“ segir Víðir.

Vill bera út boðskapinn um mikilvægi sýnatöku

Hann ítrekar mikilvægi þess að fólk sé duglegt að fara í sýnatöku, jafnvel við minnstu einkenni. Víðir segir mikilvægt að bera út þau skilaboð og að fólk veigri sér ekki við að fara í skimun. „Við erum að sjá erlenda starfsmenn sem að kannski hafa ekki alveg skilið þetta og vita ekki alveg hvernig eigi að snúa sér í þessu, þannig að fyrirtæki séu mjög dugleg við það að hjálpa sínum starfsmönnum að komast í sýnatöku ef að þau eru með einhver einkenni,“ segir Víðir.

Hann segir nokkuð um það að fólk sem er að koma erlendis frá til að vinna, jafnvel í stuttan tíma, sé ekki meðvitað um hvað það sé auðvelt að komast í sýnatöku hér á landi. 

„Í mjög mörgum löndum tekur þetta marga daga og er bara heilmikið ferli að fá að komast í sýnatöku en hjá okkur hefur þetta alltaf verið mjög einfalt og auðvelt að komast í sýnatöku. Það er mikilvægt að atvinnurekendur og aðrir þeir sem eru að vinna með þeim sem koma að utan að þeir hjálpi þeim að bóka tíma í sýnatöku,“ segir Víðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×