Enski boltinn

Carragher og Neville brjálaðir út í sín félög og ofurdeildina: Vandræðalegt, skammarlegt og glæpsamlegt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jamie Carragher og Gary Neville eru á sama máli um nýju ofurdeildina.
Jamie Carragher og Gary Neville eru á sama máli um nýju ofurdeildina. epa/PETER POWELL

Jamie Carragher og Gary Neville eru ekki alltaf sammála en þeir hafa sömu skoðun á nýrri ofurdeild Evrópu.

Í gær var greint frá því að tólf félög í Evrópu hefðu stofnað nýja ofurdeild sem á að koma í stað Meistaradeildar Evrópu.

Fréttirnar vöktu mikil viðbrögð og þau neikvæðu hafa verið mun meira áberandi en þau jákvæðu. 

Carragher og Neville eru meðal þeirra sem eru ósáttir við nýju ofurdeildina og þeir sendu sínum eigin félögum, Liverpool og Manchester United, tóninn í gær.

„Þetta er vandræðalegt fyrir Liverpool. Hugsið um allt fólkið sem kom á undan okkur hjá þessu félagi sem hefði fundist þetta jafn vandræðalegt,“ skrifaði Carragher á Twitter.

Neville flutti svo mikla eldræðu á Sky Sports eftir leik United og Burnley í ensku úrvalsdeildinni.

„Þetta hefur verið fordæmt og það skiljanlega. Ég hef verið stuðningsmaður Manchester United í fjörutíu ár en mér býður við þessu, sérstaklega hvað varðar United og Liverpool,“ sagði Neville.

„Manchester United, stofnað af verkafólki á svæðinu, er að stofna deild án keppni þar sem þeir geta ekki einu sinni fallið. Þetta er til skammar. Það þarf að taka völdin af þessum stærstu félögum í deildinni, þar á meðal mínu félagi.“

Neville hvatti til þess að ensku félögunum sem eru í hópi stofnmeðlima ofurdeildarinnar yrði refsað.

„Dragið af stig af þeim öllum á morgun. Sendið þau á botn deildarinnar og sektið þau. Í alvöru, við þurfum að stíga fast til jarðar. Þetta er glæpsamlegt gagnvart fótboltaaðdáendum í landinu,“ sagði Neville.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×