Íslenski boltinn

Ágúst að láni til FH

Sindri Sverrisson skrifar
Ágúst Eðvald Hlynsson lék tvö síðustu tímabil með Víkingi.
Ágúst Eðvald Hlynsson lék tvö síðustu tímabil með Víkingi. vísir/Bára

Knattspyrnumaðurinn Ágúst Eðvald Hlynsson mun leika með FH fyrri hluta sumars en hann kemur í Hafnarfjörðinn að láni frá Horsens í Danmörku.

Fram kemur á heimasíðu Horsens að lánsdvölin sé til 1. júlí og að Ágúst ætli svo að snúa aftur til Horsens og vinna áfram að því markmiði að verða lykilleikmaður hjá Horsens.

„Fyrir mér er þetta skref til FH afar jákvætt. Umhverfi sem mun hjálpa mér að verða betri leikmaður og spennandi hópur sem vill ná árangri. Ég er þakklátur Horsens að leyfa mér að fara að láni og FH fyrir að gefa mér tækifæri á að spila í hvíta búningnum,“ er haft eftir Ágústi í fréttatilkynningu FH.

Ágúst fór til Horsens frá Víkingi R. síðasta haust en hefur aðeins einu sinni verið í byrjunarliði í deildarleik í dönsku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. Hann kom við sögu í sjö deildarleikjum með Horsens en spilar ekki meira með liðinu á yfirstandandi leiktíð.

Ágúst, sem er 21 árs, var lykilmaður í liði Víkinga, lék með þeim tvær leiktíðir og varð bikarmeistari 2019.

Ágúst er uppalinn hjá Þór og Breiðabliki en fór frá Blikum til enska félagsins Norwich árið 2016 og lék með unglingaliðum félagsins í tvö ár.

Ágúst á að baki 27 leiki fyrir yngri landslið Íslands, þar af þrjá leiki fyrir U21-landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×