„Þetta svindl fer þannig fram að óprúttnir aðilar senda á nokkur þúsund handahófskennd íslensk símanúmer og vonast til þess að einhver af þeim eigi von á sendingu með DHL. Og þar sem yfir þúsund einstaklingar hér á landi eiga von á sendingu með DHL á hverjum degi þá eru því miður töluverðar líkur á því að einhver smelli á hlekkinn í góðri trú og gefi upp kortanúmerið sitt í framhaldinu,“ segir í tilkynningunni.
Því miður hafi reynst erfitt að stöðva svindl af þessum toga þar sem svikahrapparnir búi til sínar eigin heimasíður og símanúmerin virðast valin handahófskennt. „. Við erum í stöðugum samskiptum við netöryggisdeild DHL í Evrópu sem rannsakar málið og gerir sitt besta í að loka þessum síðum,“ segir í tilkynningu DHL.
Þá er viðskiptavinum bent á að þeir sem eiga von á sendingu með DHL fái greiðsluseðil í heimabanka. Aldrei séu send skilaboð með hlekk á vefslóð með SMS eða tölvupósti þar sem óskað er eftir kreditkortaupplýsingum.
„Ef þú átt von á sendingu með DHL sem er komin til landsins þá færðu sms frá DHL á Íslandi um að sendingin sé komin og getur þú þá valið um afhendingarmöguleika með því að smella á hlekkinn,“ segir ennfremur í tilkynningunni.
„Við viljum því ítreka að fólk smelli aldrei á hlekki eða linka í skilaboðum sem virðast koma frá DHL ef beðið er um greiðsluuplýsingar. Gefið aldrei upp kreditkortaupplýsingar í gegnum hlekki því við sendum alltaf greiðsluseðil í heimabanka.“