Frá því faraldurinn hófst hér á landi hafa öll jákvæð innanlandssýni og jákvæð sýni sem greinast á landamærum verið raðgreind hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Teymi þar hefur greint þriðju bylgju faraldursins sem var kennd við franska afbrigði veirunnar til fransks ferðamanns sem kom til landsins í ágúst. Smitin sem eru rakin til hennar eru merkt með bláu á myndinni hér að neðan. Alls smituðust 2700 manns af þessari tegund kórónuveirunnar.

Páll Melsteð, prófessor í tölvunarfræði og deildarstjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu, segir raðgreininguna afar gagnlega.
„Þetta var eitt risastórt hópsmit sem rekja má til eins einstaklings sem greinist ekki fyrr en í seinni skimun um miðjan ágúst í fyrra. Það sem er merkilegt er að við náðum algjörlega að útrýma því en þó ekki fyrr en í janúar á þessu ári,“ segir Páll.
Páll segir að rakningargögnin sýni ótvírætt gagnsemi sóttkvíar en smitstuðull lækkar eftir því sem fólk er lengur í sóttkví.

Þá sýni gögnin svart á hvítu hvernig smit fara lækkandi þegar gripið er til harðra aðgerða eins og sjá má á þessari mynd þar sem rauðu línurnar marka aðgerðir.

Hann segir, mikinn hraða í rakningu. Smit hafi til að mynda komið upp á leikskólanum Jörfa á föstudag. Daginn eftir hafi verið búið að raðgreina það.
„Við náum á laugardagskvöld að tengja þetta smit við ákveðið landamærasmit og sendum strax til smitrakningarteymisins sem getur svo unnið málið áfram strax á sunnudag,“ segir hann.
Hann segir rakningu afar gagnlega til að finna hvernig smit leka inn í landið frá landamærum. Aðspurður hvort síðustu smit hefðu komið upp hefði fólk verið skyldað á farsóttarhótel segir Páll.
„Þá hefði viðkomandi ekki haft þetta tækifæri til að dreifa smitinu áður en hann greinist jákvæður og fer í einangrun,“ segir Páll að lokum.