Fótbolti

Gummi Ben um Ofur­deildina: „Eitt alls­herjar klúður“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðmundi líst ekki á blikuna.
Guðmundi líst ekki á blikuna. skjáskot/vísir

Guðmundur Benediktsson, íþróttafréttamaður, segir að ný Ofurdeild sé í raun eitt allsherjar klúður. Guðmundur ræddi við Svövu Kristínu Grétarsdóttur í Sportpakka kvöldsins þar sem farið var yfir vendingarnar í alheimsfótboltanum.

Tilkynnt var um Ofurdeildina í gær þar sem tólf lið hafa komið sér saman um að stofna deild sem þeir ætla að taka fram yfir Meistaradeildina en þetta hefur verið heitasta umræðuefni dagsins.

„Þetta er stærsta fréttin í fótboltaheiminum í dag. Það virðast vera að tólf stærstu lið séu búin að kljúfa sig út og ætli að stofna Ofurdeild sem eigi að vera stærri en Meistaradeildin,“ sagði Guðmundur um fréttir dagsins.

„Þetta er klárlega ekki að fara vel í UEFA og FIFA og hvað þá deildirnar sem liðin eru að spila í. Þetta er eitt allsherjar klúður er eiginlega það fyrsta sem mér dettur í hug eftir fyrstu fréttir.“

Guðmundur segir að liðin ætli að taka Ofurdeildina fram yfir Meistaradeildina en spili þó áfram í deildunum heima fyrir.

„Planið virðist vera að spila í sínum deildum en hætta að spila í Evrópudeildinni og Meistaradeildinni og stofna sína eigin Ofur-Evrópudeild ef svo má kalla. Það fer ekki vel í deildirnar að liðin séu að hóta þessu.“

„Þetta eru tólf af stærstu liðum Evrópu og þau vilja greinilega meira. Þau vilja stærri bita af peningakökunni og það þykir mörgum ekki sanngjarnt; að stærstu liðin og þau sem fái mest, vilji enn meira.“

Gummi segir að hann eigi þó eftir að sjá þetta allt saman verða að veruleika og heldur að liðin muni alltaf spila í deildunum heima fyrir, sama hvað gerist.

„Ég á eftir að sjá þetta allt saman verða að veruleika. Það er hver höndin upp á móti annarri í dag eftir að þetta var tilkynnt í gærkvöldi svo ég á eftir að sjá þetta gerast. Ég trúi ekki öðru en að það finnist einhverjar sættir.“

„Ég get ekki séð það að lið eins og Liverpool og Manchester United séu ekki að fara spila í ensku úrvalsdeildinni. Það virkar ekki ef þau eru ekki. Þeir segja að það sé eftir að koma þrjú lið inn í Ofurdeildina og að það séu fimmtán en svo geta fimm lið unnið sig inn í deildina. Ég skil ekki þetta reikningsdæmi. Þetta verður mjög áhugavert.“

Allt viðtalið við Guðmund má sjá hér að neðan.

Klippa: Sportpakkinn - Gummi Ben um Ofurdeildina

Tengdar fréttir

Frétta­skýring: Ofur­deild Evrópu

Ofurdeild þetta, ofurdeild hitt. Heitasta umræðuefni dagsins er eðlilega títtnefnd ofurdeild Evrópu í knattspyrnu. Hér að neðan verður kafað ofan í hvað felst í hugmyndinni, hvernig henni verður háttað og almennt allt sem henni viðkemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×