Skoðun

Hjólasöfnun Barnaheilla - líka á landsbyggðinni

Matthías Freyr Matthíasson skrifar

Á fimmtudaginn er sumardagurinn fyrsti. Daginn tekur sífellt að lengja og við sjáum grasið byrja að grænka og fuglana syngja sumarið inn fyrir okkur. Við sem búum á Íslandi fögnum þessum árstíma og hlökkum til að komast út í sumarið og vonandi verður sumarið okkur gott.

Hjólasöfnun Barnaheilla – Save the Children á Íslandi er hafin og hafa fjölmörg hjól borist í söfnunina sem sjálfboðaliðar á verkstæði okkar hafa hafist handa við að laga og yfirfara. Úthlutun í samstarfi við félagsþjónustur sveitarfélaganna er farin af stað og gengur hún vel. Það er engu líkt að upplifa gleði í augum barna og ungmenna sem sjá fram á það að geta sinnt heilnæmri útivist í sumar með því að hjóla á eigin hjóli. Markmið Hjólasöfnunarinnar er að sem flest börn og ungmenni eignist sitt eigið hjól.

Í ár er líka nýbreytni í starfsemi Hjólasöfnunarinnar. Hjólreiðafélagið Drangey á Sauðárkróki og Barnaheill – Save the Children á Íslandi tóku upp samstarf og eru meðlimir Drangeyjar að taka á móti hjólum í Skagafirði. Meðlimir félagsins lagfæra og yfirfara hjólin og úthluta í samstarfi við félagsþjónustuna á Sauðárkróki. Það er ánægjulegt að sjá verkefnið stækka og vaxa með hverju árinu og það er gleðilegt að uppgötva að hægt er að útfæra Hjólasöfnunina í minni þéttbýlis- og dreifbýlisstaði á landsbyggðinni sem verður þá til þess að enn fleiri börn og ungmenni hafi kost á að eignast sín eigin hjól.

Vonir standa til að hægt sé að þróa verkefnið enn frekar og útfæra á fleiri stöðum á landinu á næstu árum. Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru reiðubúin til þess að halda utan um slík verkefni í samstarfi við sveitarfélög og félagasamtök.

Það er ljóst að Hjólasöfnunin gengur ekki án þess að fyrirtæki og stuðningsaðilar styðji við hana. Við hjá Barnaheillum erum þakklát þeim fjölmörgu fyrirtækjum og einstaklingum sem lagt hafa okkur lið. Við hlökkum til sumarsins og vonumst til þess að sjá sem flest börn og ungmenni úti að hjóla í sumar, með hjálm á höfði og bros á vör.

Höfundur er verkefnisstjóri Hjólasöfnunar Barnaheilla.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×