Fótbolti

Skiptar skoðanir um refsingu gegn Ofur­deildar­liðunum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Staðið var að miklum mótmælum fyrir utan Stamford Bridge fyrir leik Chelsea við Brighton í gærkvöld. Brighton er á meðal félaganna sem skoðar að refsa Chelsea auk hinna félaganna fimm fyrir þátttöku í stofnun Ofurdeildar Evrópu.
Staðið var að miklum mótmælum fyrir utan Stamford Bridge fyrir leik Chelsea við Brighton í gærkvöld. Brighton er á meðal félaganna sem skoðar að refsa Chelsea auk hinna félaganna fimm fyrir þátttöku í stofnun Ofurdeildar Evrópu. EPA-EFE/NEIL HALL

Ensku úrvalsdeildarliðin 14 sem ekki komu að stofnun Ofurdeildar Evrópu íhuga nú hvort og hvernig skuli refsa þeim stóru sex sem að deildinni stóðu. Liðin sex drógu sig í hlé frá fyrirhugaðri Ofurdeild í gærkvöld.

Sky Sports hefur eftir heimildamönnum sínum innan enskra úrvalsdeildarliða að til skoðunar sé að refsa stóru félögunum sex, Arsenal, Chelsea, Liverpool, Manchester City,  Manchester United og Tottenham, fyrir tilraunir sínar til stofnunnar Ofurdeildarinnar. Stofnunartilraunin sé skýrt brot á reglum ensku úrvalsdeildarinnar og skapa þurfi fordæmi sem fæli frá frekari tilraunir í framtíðinni.

Reglan sem vísað er til - regla L9 - segir til um að hvert það félag sem hyggst ganga í nýja keppni þurfi til þess skriflegt leyfi frá stjórn ensku úrvalsdeildarinnar. Slíkt leyfi var ekki til staðar og því um skýrt brot á reglum deildarinnar að ræða.

Þrátt fyrir að brot hafi átt sér stað eru skiptar skoðanir á meðal úrvalsdeildarfélaganna um mögulega refsingu. Stóru liðin sex skapa mestar tekjur fyrir deildina sem kemur hinum liðunum 14 til góða, auk þess sem Sky hefur eftir ónefndum stjórnarmanni úrvalsdeildarfélags að peningarefsing myndi að öllum líkindum koma niður á starfsmönnum félagsins, leikmönnum og þjálfurum, fremur en eigendunum sem stóðu að Ofurdeildinni.

Óvíst er því hvort refsingar bíði stóru liðanna en leiða má líkur að því að reglur deildarinnar verði hertar. Félögin 14 funda frekar um málið í vikunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×