Innlent

Svandís krossar fingurna og telur ósætti litast af komandi kosningum

Snorri Másson skrifar
Svandís Svavarsdóttir ræddi við fréttamenn eftir ríkisstjórnarfund í morgun.
Svandís Svavarsdóttir ræddi við fréttamenn eftir ríkisstjórnarfund í morgun. Vísir/Vilhelm

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist fegin að heyra frá sóttvarnalækni að smitin sem greinist þessa dagana helgist af afmörkuðum hópsmitum af Covid-19. Hún vonast til þess að næstu aðgerðir séu afléttingar frekar en herðingar.

Gildandi reglugerð innanlands á að gilda fram í maí og óráðið hvað þá tekur við.

„Ég er aðallega í því núna að krossa puttana yfir því að við þurfum ekki að grípa til hertra ráðstafana,“ segir Svandís í samtali við fréttastofu. „Ég er mjög glöð þegar sóttvarnalæknir segir okkur að þetta séu afmörkuð hópsmit í samfélaginu, þó að þetta sé sannarlega enn að dúkka upp hér og þar.“

„Þannig að ég vonast til þess að næstu fréttir verði um afléttingar en ekki herðingar,“ segir heilbrigðisráðherra.

Yfirvofandi kosningar farnar að segja til sín

Frumvarp Svandísar um skylduvist fólks frá ákveðnum löndum á sóttkvíarhóteli var samþykkt með 28 atkvæðum á Alþingi í gær. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins greiddi atkvæði gegn því.

„Ég hefði gjarnan viljað meiri samstöðu um það mál. En ég held að pólitískar vendingar í því máli ráðist líka að hluta til af því að við erum komin á kosningaár. Það er auðvitað mjög dýrmætt í þessu máli og hefur verið okkur mikil gæfa í baráttunni við faraldurinn að við höfum staðið vel saman. Sérstaklega samfélagið sjálft og þjóðin hefur staðið með sóttvarnayfirvöldum.

Það eru komnir skruðningar í pólitíska umræðu sem eru umhugsunarefni vegna þess að jafnaði hefur það ekki verið þannig að baráttan við veiruna væri pólitískt bitbein,“ segir Svandís.

Viðmið fyrir skyldudvöl lækkuð

Svandís tilkynnir í dag eða á morgun um reglugerð um skylduvist farþega eftir komuna til landsins. Hún gaf ekki upp um hvað fælist í henni en hún er samin á grundvelli tillagna sóttvarnalæknis.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði við Stöð 2 í hádeginu að hún ætti von á að viðmiðin fyrir skylduvist yrðu lækkuð. Upphaflega stóð til að það miðaðist við nýgengi upp á 1000 í viðkomandi landi en þetta verður að líkindum lægra.

Ef þau lækka mikið getur svo farið að þau endi við sömu mörk og var ætlunin með allra fyrstu reglugerð um skyldudvöl á sóttkvíarhóteli, en þar var miðað við 500.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×