Lífið

Natan Dagur á­fram í næstu um­ferð eftir stór­brotinn flutning á lagi Ri­hönnu

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Natan Dagur er kominn í sextán manna úrslit í The Voice í Noregi.
Natan Dagur er kominn í sextán manna úrslit í The Voice í Noregi. Skjáskot/The Voice Norway

Natan Dagur Benediktsson er kominn áfram í sextán manna úrslit í norsku útgáfunni af sjónvarpsþáttunum Voice. Natan Dagur flutti lagið Stay með Rihönnu með glæsibrag í 32 manna úrslitunum sem fram fóru í gær en þetta var í þriðja sinn sem Natan Dagur steig á svið í þáttunum en flutning hans má sjá í spilaranum hér að neðan.

Keppnin í gær var útsláttarkeppni sem þýðir að aðeins helmingur þeirra 32 sem stigu á svið í gær komust áfram. Natan Dagur mætti söngvaranum Mads Sølnes í einvígi en hann söng lagið Watermelon sugar með Harry Styles. Natan varð hlutskarpari og hefur líkt og áður segir tryggt sér sæti í sextán manna úrslitum, en sextán manna úrslitin eru einmitt fyrsta umferðin sem sýnd verður í beinni útsendingu á norsku sjónvarpsstöðinni TV 2.

Natan Dagur hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína í þáttunum til þessa. Fyrsti flutningur hans í svokallaðri blindri áheyrnarprufu hefur fengið rúmlega 1,2 milljón spilanir á YouTube. Þá flutti hann lagið Bruises með Lewis Capaldi og kemst flutningur hans á lista yfir efstu þrjú lögin í sögu Voice í Noregi sem hafa fengið flestar hlustanir á YouTube.

Flutningurinn er jafnframt kominn með yfir hálfa milljón spilanir á Spotify og hefur verið valinn einn af tíu bestu blindu flutningum í heiminum á þessu ári á fjórum af stærstu YouTube-rásum The Voice.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.