Fótbolti

Ísak lagði upp og skoraði sigurmarkið

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ísak Bergmann.jfif

Þónokkrir Íslendingar voru í eldlínunni í deildum víðsvegar um Evrópu um miðjan dag í dag. Hæst ber að Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði sigurmark Norrköping í 2-1 sigri á Halmstad.

Það byrjaði ekki vel fyrir Norrköping þegar Halmstad kom í heimsókn í dag en Marcus Antonsson kom liðinu yfir eftir aðeins fjögurra mínútna leik. 1-0 stóð í hléi en eftir tæplega tuttugu mínútna leik jafnaði Nígeríumaðurinn Samuel Adegbenro fyrir Norrköping eftir stoðsendingu Ísaks Bergmann. Ísak lét ekki þar við sitja heldur skoraði hann sigurmark Norrköping á 79. mínútu.

Ari Freyr Skúlason var í byrjunarliði Norrköping, líkt og Ísak, en Ara var skipt af velli á 59. mínútu, skömmu fyrir fyrra mark Norrköping. Um var að ræða fyrsta sigur Norrköping á leiktíðinni, en liðið er með fjögur stig eftir þrjá leiki.

Landsliðskonan Hlín Eiríksdóttir spilaði allan leikinn fyrir Pitea sem tapaði 2-0 fyrir Eskiltuna United í dag. Pitea er án stiga eftir fyrstu tvo leiki sína í sænsku úrvalsdeildinni.

Sverrir Ingi Ingason kom inn á sem varamaður í lið PAOK á 80. mínútu í 0-0 jafntefli við Panathinaikos. PAOK er með 58 stig í öðru sæti deildarinnar, langt á eftir toppliði Olympiakos.

Willum Þór Willumsson kom ekki við sögu hjá BATE Borisov í Hvíta-Rússlandi er liðið vann 4-1 sigur á Isloch.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×