Hinn 32 ára Kobili Traoré var ákærður fyrir að ráðast á Lucie Attal með ofbeldi og kasta henni síðan fram af svölum íbúðar hennar í París árið 2017.
Æðsti áfrýjunardómstóll Frakklands (Cour de cassation) staðfesti hins vegar á dögunum þá niðurstöðu undirdómstóla að ekki væri hægt að rétta yfir Traoré, þar sem hann hefði verið „veruleikafirrtur“ sökum fíkniefnaneyslu og ekki haft stjórn á gjörðum sínum.
Fjölskylda Attal, sem var betur þekkt sem Sarah Halimi, segir ákvörðunina „óréttláta“ og hefur systir hennar tilkynnt að hún hyggist freista þess að sækja málið fyrir dómstól í Ísrael, þar sem hún býr.
Efnt var til mótmæla vegna málsins víðsvegar í Frakklandi í gær en einnig í Róm, Tel Aviv, Lundúnum, Los Angeles, Miami og New York.
Frank Tapiro, sem skipulagði mótmælin í París, sagði mótmælendur kalla eftir réttlæti.
„Við viljum réttarhöld, óháð niðurstöðunni. [Traoré] kaus að reykja kannabis. Sérfræðingar hafa skilað sínum skýrslum en dómstólar þurfa ekki að samþykkja þær. Þetta vandamál snertir alla Frakka, ekki bara gyðinga.“

Traoré braust inn á heimili Halimi um nótt og réðist á hana þar sem hún lá sofandi. Er hann sagður hafa kallað „Allahu Akbar“ á meðan og farið með vers úr Kóraninum. Hann kastaði henni síðan fram af svölum íbúðarinnar, þar sem hún hafði búið í 30 ár.
Nágrannar Halimi sögðu Traoré hafa kallað að hann hefði drepið djöfulinn, þar sem hann stóð á svölunum. Hann viðurkenndi seinna að hann hefði vitað að Halimi var gyðingur en neitaði því að um hatursglæp hefði verið að ræða.
Dómsmálaráðherrann Éric Dupond-Moretti sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann greindi frá því að frumvarp yrði lagt fyrir þingið í maí en samkvæmt því yrði dómstólum gert kleift að taka það til greina ef sakborningur hefði viljugur neytt fíkniefna sem leiddu til þess að hann væri ekki ábyrgur gjörða sinna.