Fram að þessu hefur CDC mælt með því að Bandaríkjamenn gangi með grímur utandyra ef þeir eru í návígi við annað fólk. Nú hefur hins vegar meira en helmingur fullorðinna landsmanna fengið að minnsta kosti fyrri skammt af bóluefni, um 140 milljónir manna. Meira en þriðjungur er fullbólusettur.
Nú segir stofnunin að fólk þurfi ekki að nota grímur utandyra þegar það fer í göngutúr, hjólar eða hleypur eitt eða með öðrum sem deila með því heimili, hvort sem það er bólusett eða ekki. Þeir sem eru fullbólusettir geta líka komið saman utandyra grímulausir, að því er kemur fram í frétt AP-fréttastofunnar.
Þeir sem eru ekki bólusettir ættu áfram að nota grímur þar sem fólk kemur saman utandyra og þegar þeir snæða á veitingastöðum utandyra með fólki sem býr ekki með þeim. Allir, bólusettir sem óbólusettir, ættu áfram að nota grímur í mannfjölda utandyra eins og á tónleikum eða íþróttaviðburðum.
Áfram er mælt með því að fólk noti grímur innandyra, þar á meðal á hárgreiðslustofum, veitingastöðum, verslunarmiðstöðvum, líkamsræktarstöðvum, söfnum og kvikmyndahúsum.