Enski boltinn

Martröð Man. Utd: Tap gegn Liverpool gæti fært City titilinn

Sindri Sverrisson skrifar
Manchester City er þegar búið að landa deildabikarmeistaratitli og á góðri leið með að komast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.
Manchester City er þegar búið að landa deildabikarmeistaratitli og á góðri leið með að komast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. EPA/YOAN VALAT

Sjöundi Englandsmeistaratitillinn blasir við Manchester City og aðeins virðist spurning hvenær liðið landar titlinum. Það gæti orðið strax um helgina.

Manchester United mætir erkifjendum sínum í Liverpool á sunnudaginn. Ef að City vinnur Crystal Palace á laugardag, og United tapar svo gegn Liverpool, yrði titillinn í höfn hjá City. 

Rauði hluti Manchesterborgar þyrfti þá að hlusta á fagnaðarlæti bláa hlutans vegna fjórða Englandsmeistaratitilsins frá því að United fagnaði honum síðast, samhliða því að sýta tapið gegn Liverpool.

Ef að City verður ekki Englandsmeistari um helgina gæti liðið landað titlinum laugardaginn 8. maí, á heimavelli gegn Chelsea. City á svo eftir leiki við Newcastle, Brighton og loks Everton.

City er með 77 stig eftir 33 umferðir, tíu stigum á undan United sem er í 2. sæti.

City getur því mest endað með 92 stig á tímabilinu og mun enda með færri stig en meistarar síðustu fjögurra tímabila. City setti met með því að ná 100 stigum fyrir þremur árum og náði 98 stigum þegar liðið vann 2019. Liverpool náði 99 stigum í fyrra og Chelsea 93 árið 2017.

Með sjöunda Englandsmeistaratitli sínum verður City jafnt Aston Villa í 5.-6. sæti yfir flesta titla, fyrir ofan Chelsea og Sunderland sem unnið hafa sex. United á flesta Englandsmeistaratitla eða 20 en vann þann síðasta árið 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×