Innlent

Hands­hófs­kennd­ar ból­u­setn­ing­ar skoð­að­ar nán­ar

Samúel Karl Ólason og Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifa
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir það efni sem hafi verið kynnt ríkisstjórninni í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar í gær hafa verið mjög áhugavert. Það hafi fjallað um hvaða aðferðafræði dugi best til að ná fram hjarðónæmi gegn Covid-19 í samfélaginu.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og vísindamenn fyrirtækisins kynntu í gær nýja rannsókn þar sem kannað var hvaða áhrif bólusetningar hefðu haft á þriðju bylgju Covid-19 hér á landi, þar sem 2.600 manns smituðust.

Samkvæmt reiknilíkani sem varð til vegna rannsóknarinnar næðist hjarðónæmi fyrr ef bólusetningaröðinni væri breytt og yngra fólk bólusett fyrr, því það sé líklegra til að smita fleiri.

Katrín segir að hingað til hafi verið unnið að því að koma viðkvæmustu hópum Íslands í skjól. Það hafi verið yfirlýst markmið með bólusetningum og því hafi verið byrjað á elstu hópunum, fólki með undirliggjandi sjúkdóma og framlínustarfsfólk.

„Ég held að það sé rétt forgangsröðun en það sem við erum þá að horfa til er þegar við erum komin á þann stað sem við höfum verið að stefna að, þá tökum við þetta að sjálfsögðu til skoðunar. Þannig að hugsanlega verði þá yngri hópar bólusettir með handahófskenndum hætti,“ sagði Katrín.

Hún sagði að Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, myndu fara yfir gögnin og skoða þau.

Það hafi verið gert á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

Sjá má ummæli Katrínar um málið í spilaranum hér að neðan. Hún var spurð um skoðun sína eftir um 4:25.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×