Í dag var greint frá því að 386,452 hefðu greinst smitaður áðurgengin sólarhring og að 3.498 hefðu dáið. Reuters segir sérfræðinga þó telja að raunverulega talan sé frá fimm til tíu sinnum hærri.
Ástandið þykir mjög alvarlegt á Indlandi og hefur það versnað hratt á undanförnum vikum. Skortur er á súrefni, öndunarvélum, lyfjum og öðrum nauðsynjum og ráða sjúkrahús engan veginn við ástandið.
Þó nýtt afbrigði nýju kórónuveirunnar virðist smitast auðveldar manna á milli, hefur AP fréttaveitan eftir sérfræðingum að aðrir þættir spili einnig inn í. Stórar hátíðir spili stóra rullu auk almennrar þreytu á félagsforðun og grímuburði.
Ekkert ríki heimsins framleiðir meira af bóluefnum en Indland og hafa yfirvöld þar meinað útflutning bóluefna og þeirra efna sem til þarf að framleiða þau. Tveir stærstu framleiðendur landsins voru þó þegar í vandræðum með að auka framleiðslu í meira en 80 milljónir skammta á mánuði.
Af 1,4 milljörðum íbúa hafa um 9 prósent fengið minnst einn skammt af bóluefni, samkvæmt Reuters.
Nú er skortur á bóluefnum víða í landinu. Ráðmenn í Mumbai hafa tilkynnt að bólusetningarstöðvum verður lokað í þrjá daga. Æðsti embættismaður Delhi hefur sömuleiðis sagt fólki að mæta ekki á morgun, þar sem bóluefni hafi ekki borist. Svipaða sögu er að segja í Karnataka-héraði.
Reuters hefur eftir ráðherra þess héraðs að ekki sé vitað hvenær bóluefni myndu berast.