Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Leiknir R. 0-0 | Markalaust í Garðabæ

Atli Arason skrifar
Það var hart barist í Garðabænum.
Það var hart barist í Garðabænum. Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan og Leiknir R. skildu jöfn í fyrsta leik gestanna í efstu deild í 6 ár. Lokatölur 0-0 á Samsung-vellinum í Garðabæ.

Stjarnan stjórnaði ferðinni í upphaf leiks en gestirnir úr Breiðholtinu voru þó alltaf hættulegir í skyndisóknunum. Vörn Leiknis hélt vel í fyrri hálfleik og flest skot Stjörnunnar komu fyrir utan vítateig. Hættulegasta færi fyrri hálfleiks féll hins vegar fyrir Brynjar Gauta sem átti flottan skalla eftir fyrirgjöf Daníels Laxdals frá vinstri kanti á 12. mínútu en Guy Smit sýndi flott tilþrif þegar hann varði kollspyrnu Brynjars. 

Guy Smit átti góðan leik í marki Leiknis.Vísir/Hulda Margrét

Smit var hörku góður í liði gestanna í kvöld og átti alveg þó nokkrar hörku flottar markvörslur sem héldu Leiknismönnum inn í leiknum. Umdeildasta atvik fyrri hálfleiksins var einnig á milli þeirra tveggja á 31. mínútu en eftir marktilraun Brynjars Gauta og þegar boltinn er kominn aftur fyrir endamörk, hleypur Smit í átt að Brynjari með kassann úti og þeim lendir saman með þeim afleiðingum að Brynjar fellur til jarðar. 

Smit virtist eitthvað óánægður með það hvernig Brynjar renndi sér í átt að honum til að komast í boltann. Þó svo að Brynjar hafi farið frekar auðveldlega til jarðar þá verður að segjast að Guy Smit var heppinn að sjá ekki spjald frá Einari Mikael, dómara leiksins. Lítið meira gerðist í fyrri hálfleiknum sem lauk 0-0.

Seinni hálfleikurinn var frekar bragðdaufur framan af. Áfram hélt Stjarnan að ráða lögum og lofum nánast allan síðari hálfleikinn en Guy Smit sýndi áfram flottan leik í marki gestanna og varði allt sem á hann kom. Á 85. mínútu dróg þó til tíðinda þegar varamaðurinn Sólon Breki náði að vinna boltann af Einari Karli í öftustu línu Stjörnunnar. 

Þegar Sólon virðist vera að sleppa einn í gegn rennir Einar sér á eftir honum og tekur hann þá niður og uppsker réttilega rautt spjald. Þetta virðist kveikja í Leiknis mönnum sem fá á lokamínútunum fengu góð tækifæri til að sækja öll stigin þrjú. 

Í aukaspyrnunni sem kom í kjölfarið fær Binni Hlö dauðafæri en hann hittir ekki boltann með höfðinu, boltinn fer af öxl hans og beint á Halla í marki Stjörnunnar. 5 mínútum síðar sleppur Sævar Atli einn í gegnum vörn heimamanna en aftur er Halli vel á verði í markinu og bjargar stigi fyrir Stjörnuna. Lokatölur í Garðabæ, 0-0.

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var ekki alltof sáttur með stigið.Vísir/Hulda Margrét

Af hverju var jafntefli?

Markmenn beggja liða áttu flottan leik. Guy Smit hélt sínum mönnum inn í leiknum en svo þegar taflið snerist við eftir rauða spjaldið þá sýndi Haraldur Björnsson úr hverju hann er gerður með flottum markvörslum þegar á þurfti að halda.

Hverjir stóðu upp úr?

Guy Smit fær mesta hrósið hér með flottum markvörslum trekk í trekk. Brynjar Hlöðversson var einnig flottur í vörn gestanna. Í liði Stjörnunnar stóðu Tristan Freyr og Haraldur Björnsson upp úr. Heiðar Ægisson átti einnig flott hlaup upp og niður kantinn hjá Stjörnunni.

Hvað gerist næst?

Næsti leikur Stjörnunnar er gegn hinum nýliðunum, á útivelli í Keflavík. Leiknir fær verðugt verkefni er þeir taka á móti sterku liði Breiðabliks í Breiðholtinu.

Brynjar Gauti: Ég er laminn í hausnum

Atvikið sem um er ræðir.Vísir/Hulda Margrét

Brynjar Gauti var ekki sáttur eftir marka lausa jafnteflið í Garðabæ í kvöld.

„Þetta er svekkelsi aðallega. Mér fannst við vera með ágætis tök á leiknum, við fáum fullt af færum en þetta var einhvern veginn bara stöngin út í dag. Hann ver eins og berserkur í markinu hjá þeim og það fór sem fór,“ sagði Brynjar í viðtali strax eftir leik.

Stjarnan fékk fullt af fínum tækifærum í kvöld en inn vildi boltinn ekki.

„Stundum er þetta svona, stundum setur maður boltann út við stöng og stundum fer hann beint á markvörðinn. Það er lítið við því að segja svona, fór þetta bara í dag. Við þurfum bara að vinna í þessu. Ef við höldum áfram að fá svona færi í hverjum leik þá setum við fullt af mörkum í sumar,“ svaraði Brynjar aðspurður um það hvers vegna Stjarnan skoraði ekki í kvöld.

Brynjar og Guy Smit lentu saman oftar en einu sinni í leiknum.

„Það kom langur bolti á fjær og ég henti mér á boltann og næ skoti á markið og renn svo á hann og hann var eitthvað óánægður með það og svo tók hann létta bumbu á mig. Svo var þetta bara búið, það var ekkert meira en það. Það hló allir að þessu þegar uppi var staðið,“ sagði Brynjar áður en hann var svo spurður út í seinna höggið sem hann virtist fá inn í vítateig.

„Ég veit það ekki. Boltinn er í loftinu og ég hoppa upp í hann og mér finnst ég ná að skalla hann en svo er ég bara laminn í hausinn. Ég veit ekki hvort það var hann eða varnarmaðurinn eða einhver annar. Ég var bara laminn í hausinn og ég veit ekki meir.

Maður vill alltaf fá víti en ég veit það ekki. Verðum við ekki bara að treysta dómaranum fyrir þessu,“ sagði Brynjar að lokum.

Binni Hlö: Mættir í deildina sem við eigum heima í

Brynjar (t.h.) reynir hér að róa bæði Guy Smit og Brynjar Gauta.Vísir/Hulda Margrét

Brynjar Hlöðversson, leikmaður Leiknis, var ánægður með að sækja eitt stig í Garðarbænum í fyrsta leik Leiknis í sumar. Umframt allt var hann þó glaður að vera að spila aftur í efstu deild.

„Í fyrsta lagi þá var þetta bara ógeðslega gaman, mættir í deildina sem við eigum heima í og að spila á móti sprækum Stjörnu mönnum. Þetta var bara ógeðslega gaman,“ sagði Brynjar í viðtali eftir leik.

Stjarnan lág lengi vel á Leiknismönnum en gestirnir náðu að halda þetta út í kvöld og sækja þetta stig. Leiknir fékk jafnframt færi til að sækja sigur undir lok leiks.

„Við vorum bara þéttir í dag. Við vildum stíga á þá og mæta þeim aðeins framar, þeir ná samt að hreyfa okkur ansi vel og þvinga okkur svolítið aftarlega. Við urðum þá bara að halda þéttleikanum og það gekk. Við vorum bara óheppnir að stela þessu ekki í lokin. Halli var með flotta vörslu á Sævar í lokin,“ svaraði Brynjar aðspurður að því hvers vegna Leiknir fer með stig heim í Breiðholt.

Brynjar minntist á tækifærið sem Sævar fékk undir lokin en var þá spurður út í sitt dauðafæri sem hann fékk nokkrum mínútum áður.

„Andskotinn! Ég var búinn að gleyma því,“ svarar Brynjar og pústar aðeins út. „Ég ætlaði swing-a hausnum ógeðslega fast í boltann en ég hitti hann ekki og boltinn fer því í öxlina á mér og þaðan beint á Halla,“ sagði Brynjar Hlöðversson að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira