Erlent

Segja ebólufar­aldri lokið í Austur-Kongó

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sex létust af völdum ebólufaraldursins sem herjað hefur á Austur-Kongó undanfarna þrjá mánuði. 
Sex létust af völdum ebólufaraldursins sem herjað hefur á Austur-Kongó undanfarna þrjá mánuði.  Vísir/AFP

Austur-Kongó lýsti því yfir í dag að ebólufaraldri, sem herjað hefur á landið undanfarin misseri, sé lokið. Tólf smituðust af veirunni í norður Kivu héraðinu í austurhluta landsins og sex létust.

Yfirvöld náðu tökum á faraldrinum með notkun Merck ebólu-bóluefnisins sem var gefið meira en 1.600 einstaklingum sem tengdust hinum smituðu.

Það afbrigði veirunnar sem var í dreifingu er náskylt þeim afbrigðum sem voru úti í samfélaginu í ebólufaraldrinum 2018 til 2020. Meira en 2.200 létust í þeim faraldri sem var annar mannskæðasti ebólufaraldurinn í sögunni.

Fyrsta tilfelli þessa ebólufaraldurs greindist þann 3. febrúar síðastliðinn í borginni Butembo þegar kona lést af völdum veirunnar. Eiginmaður konunnar hafði smitast af veirunni í faraldrinum sem lauk á síðasta ári.

Ebóla veldur háum hita, blæðingum, uppköstum og niðurgangi og smitast milli fólks með líkamsvessum.


Tengdar fréttir

Fyrstu dauðs­föllin vegna ebólu í Gíneu frá 2016

Minnst þrír hafa látist vegna ebólusýkingar í Gíneu og fimm aðrir hafa greinst smitaðir af veirunni. Fólkið fór að sýna einkenni, uppköst, niðurgang og blæðingar, eftir að hafa verið viðstatt jarðarför.

Staðfesta að fimm hafi látist af völdum ebólu

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO hefur nú staðfest að fimm dauðsföll í Austur-Kongó megi rekja til ebóluveirunnar. Á meðal hinna látnu er 15 ára gömul stúlka en alls hafa níu tilfelli greinst undanfarnar vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×