Erlent

Trump áfram í banni á Facebook

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Donald Trump hefur ekki mátt nota Facebook, Instagram, Twitter né YouTube síðan í janúar.
Donald Trump hefur ekki mátt nota Facebook, Instagram, Twitter né YouTube síðan í janúar. Getty

Eftirlitsnefnd Facebook staðfesti í dag bannið sem Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var settur í á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram.

Trump fékk rauða spjaldið í janúar eftir árás stuðningsmanna hans á bandaríska þinghúsið. Forsetinn þáverandi var sagður brjóta reglur miðlanna með því að upphefja ofbeldi en hann aðgangi hans á Twitter og YouTube var lokað sömuleiðis.

Eftirlitsnefndin, sem hefur það hlutverk að skera úr um réttmæti umdeildra ákvarðana er tengjast Facebook, gagnrýndi þó að forsetinn hafi verið settur í ævilangt bann. Það hafi verið gert án nægrar umhugsunar eða tillits til nokkurra reglna. Stjórnendum Facebook var því gert að endurskoða refsinguna innan sex mánaða.

„Facebook getur annað hvort bannað aðganginn tímabundið eða eytt honum,“ sagði í Twitter-færslu nefndarinnar. Mikilvægt sé að samfélagsmiðillinn setji skýrar reglur sem gildi jafnt um alla notendur.

Helle Thorning-Schmidt, formaður nefndarinnar og fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, sagðist viss um að Facebook hefði skilning á þessari afstöðu eftirlitsnefndarinnar.

„Við erum að segja Facebook að leggjast aftur yfir málið og sýna meira gagnsæi. Það þarf að koma fram við alla notendur á sama hátt og ekki beita gerræðislegum refsingum,“ sagði Thorning-Schmidt.

Trump, sem sagður er íhuga að bjóða sig aftur fram til forseta árið 2024, deyr þó ekki ráðalaus þótt hann megi ekki lengur skrifa á Twitter og Facebook. Hann opnaði nýtt vefsvæði í gær, eins konar persónulega Twitter-síðu, þar sem hann deilir skoðunum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×