Torgið, sem er við Hótel Sögu, er umkringt akbraut og skilgreinist strangt til tekið ekki sem hringtorg af borginni. Það er þó í grunninn ekkert annað en risavaxið hringtorg.
Morgunblaðið greindi frá áformunum í morgun, sem eru hluti af verkefni borgarinnar sem felur í sér að reisa fimm færanlega leikskóla.
Þar kemur fram að skoða þurfi sérstaklega umferð á svæðinu og aðkomu foreldra að leikskólanum, verði hann reistur á torginu. Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir Hagatorg.
Hugmyndin er niðurstaða starfshóps sem hefur yfirskriftina „Brúum bilið á meðan við brúum bilið“ þar sem stefnt er að því að koma fimm nýjum leikskólum fyrir á höfuðborgarsvæðinu, sem verði færanlegir og víkjandi fyrir annarri starfsemi: í Vogabyggð 5, Nauthólsvegi 81, Barónsstíg 34, Eggertsgötu 35 og Hagatorgi.