Innlent

Búast megi við miklum eldum í þessu ástandi

Samúel Karl Ólason skrifar

Slökkviliðsstjórinn á Akranesi segir að búast megi við stórum gróðureldum ef þeir kvikni í því ástandi sem sé í dag. Búið er að lýsa yfir óvissustigi á Vesturlandi, höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi vegna hættu á gróðureldum.

Undanfarið hefur verið þurrt á þessu svæði og stefnir ekki í neina úrkomu af ráði. Fólk hefur verið beðið um að sýna aðgát.

Sjá einnig: Óvissustig vegna gróðurelda frá Eyjafjöllum upp á Snæfellsnes

„Það er búið að vera þurrt síðustu daga og gróðurinn orðinn mjög þurr. Nú er kominn þessi sterki vindur, sem við höfum mjög miklar áhyggjur af,“ sagði Jens heiðar Ragnarsson, slökkviliðsstjóri Akraness og Hvalfjarðarsveitar, í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Hann sagði áhyggjurnar í hans umdæmi aðallega snúa að sumarhúsabyggð eins og í Svínadal.

Skorradalur hefur einnig verið nefndur í þessu samhengi og Jens sagði það mjög erfitt svæði. Það sé í umdæmi slökkviliðs Borgarbyggðar en slökkvilið hans muni hjálpa þar við, ef til þurfi.

„Ef það kviknar eldur í þessum kjarrskógum í sumarbústaðabyggðum og veðrið er eins og það er í dag, þá megum við alveg búast við mjög miklum eldum,“ sagði Jens.

Almannavarnir hafa biðlað til fólks að sýna sérstaka aðgát varðandi opin eld á þeim svæðum ­sem um ræðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×