Umfjöllun og viðtöl: KR - KA 1-3 | Hallgrímur í aðalhlutverki þegar KA sótti sigur í Vesturbæinn Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 7. maí 2021 20:44 KA-menn fagna þriðja marki sínu gegn KR-ingum. vísir/hulda margrét KA gerði góða ferð í vesturbæ Reykjavíkur og vann 1-3 sigur á KR í fyrsta leik 2. umferðar Pepsi Max-deildar karla í kvöld. KA er með fjögur stig eftir fyrstu tvo leiki sína en KR þrjú. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði tvö mörk fyrir KA-menn og lagði upp eitt fyrir Brynjar Inga Bjarnason. Guðjón Baldvinsson skoraði mark KR-inga. KR gekk illa á heimavelli á síðasta tímabili og heimavallarófarirnar héldu áfram í kvöld. KA tók sér hins vegar frí frá jafnteflunum og vann flottan útisigur. KA-menn byrjuðu leikinn miklu betur, héldu boltanum vel og KR-ingar voru í eltingarleik. Á 11. mínútu kom Hallgrímur KA yfir með skoti í stöng og inn fyrir utan vítateig eftir sendingu bróður síns, Hrannars Björns Steingrímssonar. KA-menn héldu áfram og á 28. mínútu kom Brynjar Ingi þeim í 0-2 með skalla eftir aukaspyrnu Hallgríms frá hægri kanti. KR-ingar sóttu í sig veðrið eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og fóru að þjarma að KA-mönnum. Ásgeir Sigurgeirsson skoraði reyndar fyrir gestina á 40. mínútu en markið var dæmt af vegna hendi. KR-ingar héldu áfram að sækja og á lokamínútu fyrri hálfleiks minnkaði Guðjón muninn með skoti af stuttu færi eftir fyrirgjöf Kristins Jónssonar frá vinstri. Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn eins og þeir enduðu þann fyrri; með stórsókn. Kennie Chopart átti skot rétt framhjá, Guðjón klippti boltann svo beint á Steinþór Má Auðunsson í marki gestanna og Haukur Heiðar Hauksson bjargaði svo á línu eftir hornspyrnu Choparts. KA-menn héldu samt sjó og á 70. mínútu voru þeir hársbreidd frá því að komast í 1-3. Beitir Ólafsson tapaði boltanum þá afar klaufalega, Hallgrímur Mar komst í dauðafæri en var ekki í miklu jafnvægi og átti hælskot í hliðarnetið. Átta mínútu síðar skoraði Hallgrímur annað mark sitt. Hann fékk boltann þá frá Daníel Hafsteinssyni vinstra megin í vítateignum og sneri boltann í fjærhornið. Eftir þetta voru úrslitin ráðin og KR-ingar voru ekki líklegir til að koma til baka. Chopart skoraði á lokamínútu en markið var dæmt af. KR-ingar ganga súrir af velli.vísir/hulda margrét Af hverju vann KA? KA-menn voru frábærir í upphafi leiks og nýttu yfirburðina til að komast í 0-2. Þeir lentu í vandræðum undir lok fyrri hálfleiks og í byrjun þess seinni en stóðust pressu KR-inga. Þeir unnu sig svo aftur inn í leikinn eftir því sem leið á seinni hálfleikinn og Hallgrímur kláraði dæmið með frábæru marki. Þrátt fyrir mikla pressu á köflum fengu KR-ingar fá opin færi og vörn KA-manna var afar sterk eins og hún er allajafna. Hverjir stóðu upp úr? Hallgrímur var besti maður vallarins, skoraði tvö mörk, lagði upp eitt og var síógnandi. Brynjar Ingi og Dusan Brkovic stóðu vaktina virkilega vel í miðri vörn KA og Steinþór Már átti flottan leik í markinu. Daníel lék einnig vel sem og Hrannar og Andri Fannar Stefánsson. Bakverðirnir Chopart og Kristinn voru bestu leikmenn KR, báðir óþreytandi, áttu hættulegar fyrirgjafir og voru hættulegustu sóknarmenn liðsins. Hvað gekk illa? KR-ingar voru undir pari á flestum vígstöðvum í kvöld. Vörnin var ekki nálægt því jafn traust og gegn Blikum í 1. umferðinni. Sóknarleikurinn var svo frekar hugmyndasnauður, sérstaklega eftir því sem leið á seinni hálfleikinn. Óskar Örn Hauksson reyndi og reyndi með litlum árangri en Atli Sigurjónsson, Ægir Jarl Jónasson og Stefán Árni Geirsson létu lítið að sér kveða. Þá voru KR-ingar algjörlega á hælunum í upphafi leiks og þegar þeir vöknuðu loks til meðvitundar voru þeir lentir tveimur mörkum undir og brekkan orðin brött. Hvað gerist næst? Á miðvikudaginn mætir KA nýliðum Leiknis í fyrsta heimaleik sínum sem fer reyndar fram á Dalvíkurvelli. Sama dag sækir KR Fylki heim. Rúnar: Nýttum ekki líflínuna sem við fengum Rúnar Kristinsson var svekktur að ná ekki fylgja eftir góðum sigri í 1. umferðinni.vísir/hulda margrét Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var ekki sáttur með frammistöðu sinna manna gegn KA, sérstaklega fyrsta hálftímann. „Við byrjuðum ofboðslega illa og gáfum KA-mönnum alltof mikinn tíma. Þeir stjórnuðu leiknum stóran hluta fyrri hálfleiks. Við tókum yfir síðasta korterið, settum pressu á þá og komum inn marki,“ sagði Rúnar. „Þeir gáfu okkur séns. Fyrstu fimmtán til tuttugu mínúturnar í seinni hálfleik voru góðar þar sem við pressuðum og þrýstum á því. Svo kom óþolinmæði þar sem við fórum að nota lengri sendingar í staðinn fyrir að halda áfram að spila. Þessi líflína sem við fengum frá KA-mönnum, við nýttum hana ekki, og þeir kláruðu þetta með marki eftir skyndisókn.“ Rúnar sagði að KA hefði verðskuldað sigurinn í leiknum í kvöld. „KA-menn voru bara betri. Þeir voru betri í fyrri hálfleik og áttu sigurinn skilið,“ sagði Rúnar. Tvö mörk voru dæmd af í leiknum, eitt af hvoru liði, og KR gerði tilkall til vítaspyrnu undir lokin. „Það voru fullt af atriðum í þessum leik. Það var dæmt mark af KA fyrir hendi í lok fyrri hálfleiks. Það var erfitt fyrir okkur að sjá hvort það var rétt eða rangt. Sama með vítaspyrnuna og þegar var dæmt var á Guðjón [Baldvinsson] undir lokin. En við stjórnum þessu ekki, Einar Ingi [Jóhannsson] er með tök á þessu og við verðum bara að sætta okkur við það. Þetta hafði ekki úrslitaáhrif,“ sagði Rúnar að lokum. Arnar: Veit ekki alveg hvað Hallgrímur var að gera Arnar Grétarsson hrósaði sínum mönnum fyrir spilamennskuna gegn KR.vísir/hulda margrét Það var skiljanlega létt yfir Arnari Grétarssyni, þjálfara KA, eftir sigurinn á KR á Meistaravöllum í kvöld. „Ég var virkilega ánægður með hvernig við byrjuðum leikinn. Fyrsta hálftímann réðum við ferðinni, skoruðum tvö góð mörk og hefðum getað skorað fleiri. Svo fengum við á okkur mark rétt fyrir hálfleik sem er alltaf slæmt,“ sagði Arnar eftir leikinn. „Við vissum að KR-ingar myndu koma ákveðnir til leiks í seinni hálfleiks og mér fannst við falla full aftarlega. Þeir réðu ferðinni án þess að skapa sér mikið. Svo fengum við algjört dauðafæri þegar Hallgrímur tók hann með hælnum. Ég veit ekki alveg hvað hann var að gera. En sem betur fer kláraði hann fyrir okkur á skemmtilegan hátt. Það gerði hlutina léttara síðustu mínúturnar. KR var auðvitað mun meira með boltann í seinni hálfleik og áttu fullt af fyrirgjöfum. En ég er mjög ánægður með Stubb. Hann er að standa sig eins og hetja,“ sagði Arnar og vísaði til markvarðarins Steinþórs Más Auðunssonar sem hefur staðið milli stanganna í fyrstu tveimur leikjum KA á tímabilinu. Nokkrir KA-menn meiddust í leiknum og Rodrigo Mateo Gomes og Jonathan Hendrickx þurftu báðir að fara af velli. „Rodri fékk höfuðhögg, það opnaðist ár og honum varð flökurt í hálfleik svo við tókum hann út af. Jonathan fékk svo högg á fótinn,“ sagði Arnar og bætti við Hendrickx yrði væntanlega ekki með gegn Leikni á miðvikudaginn. „Fyrir mót töluðum við um að við værum með stóran hóp og þyrftum kannski að lána menn en það hefur heldur betur snúist upp í andhverfu sína. Við þurfum frekar að ná í leikmenn,“ sagði Arnar að endingu. Pepsi Max-deild karla KR KA
KA gerði góða ferð í vesturbæ Reykjavíkur og vann 1-3 sigur á KR í fyrsta leik 2. umferðar Pepsi Max-deildar karla í kvöld. KA er með fjögur stig eftir fyrstu tvo leiki sína en KR þrjú. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði tvö mörk fyrir KA-menn og lagði upp eitt fyrir Brynjar Inga Bjarnason. Guðjón Baldvinsson skoraði mark KR-inga. KR gekk illa á heimavelli á síðasta tímabili og heimavallarófarirnar héldu áfram í kvöld. KA tók sér hins vegar frí frá jafnteflunum og vann flottan útisigur. KA-menn byrjuðu leikinn miklu betur, héldu boltanum vel og KR-ingar voru í eltingarleik. Á 11. mínútu kom Hallgrímur KA yfir með skoti í stöng og inn fyrir utan vítateig eftir sendingu bróður síns, Hrannars Björns Steingrímssonar. KA-menn héldu áfram og á 28. mínútu kom Brynjar Ingi þeim í 0-2 með skalla eftir aukaspyrnu Hallgríms frá hægri kanti. KR-ingar sóttu í sig veðrið eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og fóru að þjarma að KA-mönnum. Ásgeir Sigurgeirsson skoraði reyndar fyrir gestina á 40. mínútu en markið var dæmt af vegna hendi. KR-ingar héldu áfram að sækja og á lokamínútu fyrri hálfleiks minnkaði Guðjón muninn með skoti af stuttu færi eftir fyrirgjöf Kristins Jónssonar frá vinstri. Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn eins og þeir enduðu þann fyrri; með stórsókn. Kennie Chopart átti skot rétt framhjá, Guðjón klippti boltann svo beint á Steinþór Má Auðunsson í marki gestanna og Haukur Heiðar Hauksson bjargaði svo á línu eftir hornspyrnu Choparts. KA-menn héldu samt sjó og á 70. mínútu voru þeir hársbreidd frá því að komast í 1-3. Beitir Ólafsson tapaði boltanum þá afar klaufalega, Hallgrímur Mar komst í dauðafæri en var ekki í miklu jafnvægi og átti hælskot í hliðarnetið. Átta mínútu síðar skoraði Hallgrímur annað mark sitt. Hann fékk boltann þá frá Daníel Hafsteinssyni vinstra megin í vítateignum og sneri boltann í fjærhornið. Eftir þetta voru úrslitin ráðin og KR-ingar voru ekki líklegir til að koma til baka. Chopart skoraði á lokamínútu en markið var dæmt af. KR-ingar ganga súrir af velli.vísir/hulda margrét Af hverju vann KA? KA-menn voru frábærir í upphafi leiks og nýttu yfirburðina til að komast í 0-2. Þeir lentu í vandræðum undir lok fyrri hálfleiks og í byrjun þess seinni en stóðust pressu KR-inga. Þeir unnu sig svo aftur inn í leikinn eftir því sem leið á seinni hálfleikinn og Hallgrímur kláraði dæmið með frábæru marki. Þrátt fyrir mikla pressu á köflum fengu KR-ingar fá opin færi og vörn KA-manna var afar sterk eins og hún er allajafna. Hverjir stóðu upp úr? Hallgrímur var besti maður vallarins, skoraði tvö mörk, lagði upp eitt og var síógnandi. Brynjar Ingi og Dusan Brkovic stóðu vaktina virkilega vel í miðri vörn KA og Steinþór Már átti flottan leik í markinu. Daníel lék einnig vel sem og Hrannar og Andri Fannar Stefánsson. Bakverðirnir Chopart og Kristinn voru bestu leikmenn KR, báðir óþreytandi, áttu hættulegar fyrirgjafir og voru hættulegustu sóknarmenn liðsins. Hvað gekk illa? KR-ingar voru undir pari á flestum vígstöðvum í kvöld. Vörnin var ekki nálægt því jafn traust og gegn Blikum í 1. umferðinni. Sóknarleikurinn var svo frekar hugmyndasnauður, sérstaklega eftir því sem leið á seinni hálfleikinn. Óskar Örn Hauksson reyndi og reyndi með litlum árangri en Atli Sigurjónsson, Ægir Jarl Jónasson og Stefán Árni Geirsson létu lítið að sér kveða. Þá voru KR-ingar algjörlega á hælunum í upphafi leiks og þegar þeir vöknuðu loks til meðvitundar voru þeir lentir tveimur mörkum undir og brekkan orðin brött. Hvað gerist næst? Á miðvikudaginn mætir KA nýliðum Leiknis í fyrsta heimaleik sínum sem fer reyndar fram á Dalvíkurvelli. Sama dag sækir KR Fylki heim. Rúnar: Nýttum ekki líflínuna sem við fengum Rúnar Kristinsson var svekktur að ná ekki fylgja eftir góðum sigri í 1. umferðinni.vísir/hulda margrét Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var ekki sáttur með frammistöðu sinna manna gegn KA, sérstaklega fyrsta hálftímann. „Við byrjuðum ofboðslega illa og gáfum KA-mönnum alltof mikinn tíma. Þeir stjórnuðu leiknum stóran hluta fyrri hálfleiks. Við tókum yfir síðasta korterið, settum pressu á þá og komum inn marki,“ sagði Rúnar. „Þeir gáfu okkur séns. Fyrstu fimmtán til tuttugu mínúturnar í seinni hálfleik voru góðar þar sem við pressuðum og þrýstum á því. Svo kom óþolinmæði þar sem við fórum að nota lengri sendingar í staðinn fyrir að halda áfram að spila. Þessi líflína sem við fengum frá KA-mönnum, við nýttum hana ekki, og þeir kláruðu þetta með marki eftir skyndisókn.“ Rúnar sagði að KA hefði verðskuldað sigurinn í leiknum í kvöld. „KA-menn voru bara betri. Þeir voru betri í fyrri hálfleik og áttu sigurinn skilið,“ sagði Rúnar. Tvö mörk voru dæmd af í leiknum, eitt af hvoru liði, og KR gerði tilkall til vítaspyrnu undir lokin. „Það voru fullt af atriðum í þessum leik. Það var dæmt mark af KA fyrir hendi í lok fyrri hálfleiks. Það var erfitt fyrir okkur að sjá hvort það var rétt eða rangt. Sama með vítaspyrnuna og þegar var dæmt var á Guðjón [Baldvinsson] undir lokin. En við stjórnum þessu ekki, Einar Ingi [Jóhannsson] er með tök á þessu og við verðum bara að sætta okkur við það. Þetta hafði ekki úrslitaáhrif,“ sagði Rúnar að lokum. Arnar: Veit ekki alveg hvað Hallgrímur var að gera Arnar Grétarsson hrósaði sínum mönnum fyrir spilamennskuna gegn KR.vísir/hulda margrét Það var skiljanlega létt yfir Arnari Grétarssyni, þjálfara KA, eftir sigurinn á KR á Meistaravöllum í kvöld. „Ég var virkilega ánægður með hvernig við byrjuðum leikinn. Fyrsta hálftímann réðum við ferðinni, skoruðum tvö góð mörk og hefðum getað skorað fleiri. Svo fengum við á okkur mark rétt fyrir hálfleik sem er alltaf slæmt,“ sagði Arnar eftir leikinn. „Við vissum að KR-ingar myndu koma ákveðnir til leiks í seinni hálfleiks og mér fannst við falla full aftarlega. Þeir réðu ferðinni án þess að skapa sér mikið. Svo fengum við algjört dauðafæri þegar Hallgrímur tók hann með hælnum. Ég veit ekki alveg hvað hann var að gera. En sem betur fer kláraði hann fyrir okkur á skemmtilegan hátt. Það gerði hlutina léttara síðustu mínúturnar. KR var auðvitað mun meira með boltann í seinni hálfleik og áttu fullt af fyrirgjöfum. En ég er mjög ánægður með Stubb. Hann er að standa sig eins og hetja,“ sagði Arnar og vísaði til markvarðarins Steinþórs Más Auðunssonar sem hefur staðið milli stanganna í fyrstu tveimur leikjum KA á tímabilinu. Nokkrir KA-menn meiddust í leiknum og Rodrigo Mateo Gomes og Jonathan Hendrickx þurftu báðir að fara af velli. „Rodri fékk höfuðhögg, það opnaðist ár og honum varð flökurt í hálfleik svo við tókum hann út af. Jonathan fékk svo högg á fótinn,“ sagði Arnar og bætti við Hendrickx yrði væntanlega ekki með gegn Leikni á miðvikudaginn. „Fyrir mót töluðum við um að við værum með stóran hóp og þyrftum kannski að lána menn en það hefur heldur betur snúist upp í andhverfu sína. Við þurfum frekar að ná í leikmenn,“ sagði Arnar að endingu.
Umfjöllun: Egyptaland - Ísland 24-27 | Annar frábær sigur og átta liða úrslit í sjónmáli Handbolti
Umfjöllun: Egyptaland - Ísland 24-27 | Annar frábær sigur og átta liða úrslit í sjónmáli Handbolti