Umfjöllun og viðtöl: Þór Þ. - Þór Ak. 103-108 | Mikil­vægur sigur Akur­eyringa

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Þór vann mikilvægans sigur á Þór í kvöld.
Þór vann mikilvægans sigur á Þór í kvöld. Vísir/Bára

Þór Akureyri sótti gríðar mikilvæg tvö stig í Þorlákshöfn í kvöld. Með því lyftir liðið sér upp úr fallhættu og er sem stendur á leið í úrslitakeppnina þegar ein umferð er eftir af Domino´s deild kara. Lokatölur 103-108 gestunum í vil.

Heimamenn byrjuðu leikinn betur og sundurspiluðu vörn gestanna í upphafi leiks. Strákarnir frá Þorlákshöfn settu niður fyrstu níu skotin sín, og þar af voru þrír þristar.

Gestirnir þurftu að hafa meira fyrir sínum körfum en voru grimmir og tóku haug af sóknarfráköstum sem skiluðu þeim stigum í annarri tilraun.

Heimamenn voru þó aldrei langt undan og flautukarfa frá Dedrick Deon Basile frá miðju sá til þess að munurinn var ekki nema fjögur stig í lok fyrsta leikhluta.

Gestirnir náðu að stoppa í götin varnarlega í öðrum leikhluta og þvinguðu heimamenn í erfiðari skot. Annar leikhluti var fram og til baka og mikið jafnræði var með liðunum.

Nokkur hiti var í mönnum, en bæði Davíð Arnar og Srdan Stojanovic náðu sér í óíþróttamannslega villu.

Gestirnir náðu að jafna, en voru svo sjálfum sér verstir á lokakafla hálfleiksins. Þegar sex sekúndur voru eftir reyndi Ohouo Guy Landry Edi glórulaust skot fyrir Þór Ak. lengst fyrir utan. Larry Thomas tók frákastið fyrir heimamenn og lét vaða af eigin vallarhelmingi. Boltinn endaði í spjaldinu og ofan í og önnur flautukarfa leiksins fékk því að líta ljós. Staðan þegar gengið var til búningsherbergja 64-59, heimamönnum í vil.

Gestirnir mættu miklu ákveðnari til leiks í einni hálfleik. Eftir þriggja mínútna leik eftir hléð náðu þeir forystunni í fyrsta skiptið í leiknum.

Strákarnir frá Akureyri héldu áfram af mikilli ákefð og náðu að auka forskot sitt. Þeir náðu mest sex stiga forskoti í leikhlutanum, en Halldór Garðar sá til þess að munurinn var aðeins tvö stig þegar komið var að lokasprettinum.

Gestirnir byrjuðu fjórða leikhluta eins og þann þriðja, af mikilli ákvefð. Það dugði til þess að auka forskotið enn frekar og þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir var munurinn orðinn átta stig.

Heimamenn gerðu hvað þeir gátu til að brúa bilið og minnkuðu niður í 103-106 þegar 48 sekúndur voru eftir.

Gestirnir fóru þá í sókn, en klikkuðu á þrist þegar skotklukkan var að renna út. Heimamenn fengu því eitt tækifæri til að jafna, en Larry Thomas fékk þá dæmda á sig sóknarvillu. Gestirnir fengu því tvö víti sem Andrius Globys setti bæði niður og kláraði mikilvægan fimm stiga sigur.

Af hverju vann Þór Ak.?

Gestirnir voru miklu grimmari í kvöld, og þá sérstaklega í seinni hálfleik. Það var augljóst að annað liðið var að berjast fyrir lífi sínu í deildinni og gamla góða klisjan um að gestirnir hafi viljað þetta meira í kvöld á vel við.

Hverjir stóðu upp úr?

Larry Thomas átti góðan leik í liði Þórs Þorlákshafnar. Hann setti niður 30 stig og gaf auk þess átta stoðsendingar.

Í liði gestanna skoraði Dedrick Deon Basile 33 stig ásamt því að gefa 12 stoðsendingar. Ivan Aurrecoechea Alcolado kom næstur með 27 stig og 11 fráköst.

Hvað gekk illa?

Heimamenn eru með eitt besta sóknarlið landsins og gerðu það vel í kvöld. Þeir eru einnig með eitt besta varnarlið landsins, en það gerðu þeir ekki jafn vel í kvöld. Fyrir lið sem er að fá á sig þriðju fæstu stigin í deildinni er of mikið að fá á sig 108 stig gegn liði í fallbaráttunni.

Hvað gerist næst?

Þór Þorlákshöfn mætir Njarðvík á mánudaginn klukkan 19:15. Njarðvíkingar eru í harðri baráttu um úrslitakeppnissæti og eftir leikinn í kvöld sjá þeir líklega möguleika á því að leggja strákana frá Þorlákshöfn.

Á sama tíma fá Þór Ak. Hauka í heimsókn. Haukar eru nú þegar fallnir, en Þórsarar geta tryggt sér sæti í úrslitakeppninni með sigri.

Bjarki: Það spáðu okkur allir tólfta sæti og að við ættum bara að éta skít og skömm og falla með sæmd

Bjarki Ármann Oddson var gríðarlega sáttur í leikslok.

„Ég er auðvitað gríðarlega sáttur með strákana,“ sagði Bjarki Ármann Odsson, þjálfari Þórs Ak. eftir sigurinn í kvöld. „Þetta var bara frábær liðsframistaða, en ég held að ég hafi bara aldrei séð annað eins sóknar „performance“ frá liði eins og frá Þór Þorlákshöfn í fyrri hálfleik. Þeir bara gátu ekki klikkað á skoti.“

„Þvílíkur leikmaður sem Larry Thomas er. Við auðvitað þekkjum hann fyrir norðan. Þetta er auðvitað frábært lið og þeir eru búnir að ná frábærum árangri í vetur. Það er ástæða fyrir því að þeir eru í öðru sæti í deildinni.“

Heimamenn voru með tryggt annað sætið í deildinni fyrir leikinn og því í rauninni ekki að spila um neitt. Bjarki segir að það hafi hjálpað sínum mönnum í kvöld.

„Það hlýtur að hafa verið auðveldara fyrir mig að „motivera“ mína menn heldur en Lalla. Þeir eru náttúrulega tryggir í öðru sætinu.“

„Staðan var einfaldlega bara þannig að við gátum fallið í lokaumferðinni ef við hefðum ekki unnið þennan leik hér í kvöld. Það er auðvitað betra að örlögin séu bara í okkar höndum. Við förum í alla leiki til þess að reyna að vinna þá og svo verður bara talið upp úr hattinum þegar það er búið og vonandi verðum við í úrslitakeppninni þegar þeirri talningu er lokið.“

Þórsarar eiga Hauka í lokaumferðinni og Bjarki vonar að það verði jafn auðvelt að koma sínum mönnum í gírinn fyrir þann leik eins og í kvöld.

„Já, ég auðvitað vona það. Sigur í þeim leik tryggir okkur í áttunda sæti held ég alveg örugglega. Haukarnir eru með flott lið og Sævaldur er búinn að gera frábæra hluti. Það verður bara gaman að mæta þeim á laugardaginn og ég efast ekkert um það að Haukarnir vilja reyna að klára mótið á jákvæðum nótum svo að ég þarf að undirbúa mína menn aftur fyrir 40 mínútna baráttu.“

Haukarnir eru nú þegar fallnir, en Bjarki segir að það geti verið snúið að spila gegn pressulausu liði.

„Það er svolítið búið að vera einkennismerki okkar í vetur að spila pressulausir. Það spáðu okkur allir tólfta sæti og að við ættum bara að éta skít og skömm og falla með sæmd.“

„Við höfum blásið á þær hrakspár núna. Loksins get ég sagt þetta. Það getur hjálpað liðum eins og Haukum í þessu tilfelli að mæta okkur pressulausir,“ sagði Bjarki að lokum.

Lárus: Við viljum ekki spila okkar helstu hestum of mikið fyrir úrslitakeppnina

Lárus Jónsson var ekkert sérstaklega hrifinn af spilamennsku sinna manna í kvöld.vísir/bára

„Mér fannst bara Akureyrar Þórsarar betri en við í kvöld,“ sagði Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þ. eftir tapið í kvöld. „Þeir voru bara ákveðnari í að reyna að landa sigrinum og mér fannst við bara slakir.“

„Við vorum fínir sóknarlega, en varnarlega héldum við engum fyrir framan okkur og fráköstuðum illa. Mér fannst bara liðið sem við vorum að spila við langa þetta meira en við. Þeir áttu bara sigurinn fyllilega skilið.“

Lalli segir að sú staðreynd að liðið sé búið að tryggja sér annað sætið í deildinni gæti hafa haft áhrif á spilamennskuna í kvöld.

„Það getur vel verið að þeir hafi haft það á bakvið eyrað, en það er alveg sama, við erum að gera okkur tilbúna fyrir úrslitakeppni.“

„Við viljum auðvitað sýna betri framistöðu heldur en í kvöld. En það er kannski dýrt fyrir okkur að við viljum ekki spila okkar helstu hestum of mikið fyrir úrslitakeppnina, en sem lið þurfum við að sýna betri framistöðu heldur en í kvöld.“

Lárus segir að það sér mikilvægt að klára mótið á jákvæðum nótum áður en haldið er í úrslitakeppnina.

„Það er mikilvægt að klára þetta á okkar prinsippum. Við fylgdum þeim sóknarlega í dag en ekki varnarlega. Bara að spila okkar bolta, það er það mikilvægasta og það er það sem ég er að horfa á fyrir seinasta leikinn.“


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira