Innlent

Margfalt fleiri fara í aðgerð vegna offitu

Snorri Másson skrifar
Klíníkin í Ármúla er meðal stærstu einkafyrirtækja landsins í einkarekinni heilbrigðisþjónustu.
Klíníkin í Ármúla er meðal stærstu einkafyrirtækja landsins í einkarekinni heilbrigðisþjónustu. Vísir/Vilhelm

Klíníkin framkvæmir metfjölda offituaðgerða árið 2021 og stefnir í að þær verði tvöfalt fleiri en í fyrra.

Samkvæmt svari heilbrigðisráðherra stefnir í að aðgerðirnar verði fleiri en 1.000 í ár, samanborið við 500 árið 2020.

Offituaðgerðir geta verið magaermi, magahjáveituaðgerð eða minni hjáveituaðgerð.

Þeim hefur farið fjölgandi jafnt og þétt síðustu ár og voru 237 árið 2019, 130 árið 2018 og 62 árið 2017 hjá Klíníkinni. Það fyrirtæki sér um flestar offituaðgerðir hér á landi.

Offituaðgerðum fjölgar jafnt og þétt hjá Klíníkinni.Alþingi

Tekið er fram að um 20% þeirra sem gangast undir þessar aðgerðir fái síðkomna fylgikvilla, svo sem garnaklemmu, þrengingu á magastúf eða magasár sem þarfnast úrlausnar. 

Tíðni kvillanna er þó ekki talin há og ávinningur fyrir heilsufar mikill, þó ekki gildi það í öllum tilvikum. 

Konur eru 78% þeirra sem gangast undir þessar aðgerðir og meðalaldur sjúklinga eru 44,4 ár, eins og kemur fram í skjali sem er svar ráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata og fyrrverandi flokksbróður heilbrigðisráðherra.

Ekki er vitað um andlát á Landspítala í kjölfar offituaðgerða á tímabilinu 2010–2020, sjá nánar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×