Lögin leggja aukna ábyrgð á herðar háskólanna um að virða þær reglur um málfrelsi sem þeir hafa sjálfir sett sér. Þá verður í fyrsta sinn gerð sama krafa til stúdentasamtaka. Eftirlitsaðilar munu geta sektað háskólana og stúdentasamtökin ef þau brjóta gegn reglunum.
Þá verður skipaður sérstakur „umboðsmaður málfrelsis“ sem mun rannsaka hugsanleg brot, til dæmis afboðun gestafyrirlesara eða grunsamlegar uppsagnir fræðamanna.
Stjórnvöld segjast vonast til þess að breytingarnar verði til þess að háskólastarfsmönnum finnist þeir geta sett fram umdeildar eða óvinsælar kenningar og skoðanir, án þess að eiga það á hættu að missa vinnuna.
Talsmaður samtaka breskra háskóla (UUK) bendir hins vegar á að háskólarnir séu nú þegar með reglur um málfrelsi og þær séu uppfærðar reglulega. Ný lög væru til þess fallin að auka á skrifræðið og gætu haft ófyrirséðar afleiðingar í för með sér.
Jo Grady, framkvæmdastjóri University and College Union, segir mestu ógnina við málfrelsi fræðamanna koma frá stjórnvöldum og skólastjórnendum. Stjórnvöld ættu ekki að vera að setja reglur um hvað mætti og hvað mætti ekki segja, heldur einbeita sér að því að gera háskólunum kleift að bjóða fræðamönnum fasta langtíma starfssamninga.