Kjartan lék síðast með Esbjerg í dönsku B-deildinni en í gær var greint frá því að hann væri laus allra mála hjá félaginu og væri á heimleið.
Hann er nú genginn í raðir KR eins og við var búist og hefur skrifað undir þriggja ára samning við liðið.
Óóó Kjartan Henry...
— KR Reykjavik FC (@KRreykjavik) May 12, 2021
Velkominn heim á Meistaravelli
Einn af okkar farsælustu leikmönnum snýr aftur í Vesturbæinn eftir árabil í atvinnumennsku og verður hjá KR næstu 3 tímabilin #KHF9
Áfram KR!#allirsemeinn pic.twitter.com/XHH2sBH12Z
Kjartan varð Íslandsmeistari með KR 2011 og 2013 og bikarmeistari 2011, 2012 og 2014 undir stjórn Rúnars Kristinssonar sem er einnig þjálfari KR í dag.
Kjartan Henry, sem verður 35 ára í sumar, hefur leikið 98 leiki í efstu deild á Íslandi og skorað 38 mörk. Þá hefur hann skorað þrettán mörk í 27 bikarleikjum og átta mörk í átján Evrópuleikjum fyrir KR. Hann hefur leikið þrettán A-landsleiki og skorað þrjú mörk.
KR sækir Fylki heim í 3. umferð Pepsi Max-deildar karla í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 18:45.