Skoðun

Fjarlægjum flísina

Sigríður Hrund Pétursdóttir skrifar

Náttúra Íslands er óviðjafnanleg og dýrmæt okkur öllum. Þegar við töltum af stað með nesti og nýja skó erum við öllu jöfnu vel búin, upplýst um veðuraðstæður og búin að kynna okkur hvert ganga skal það skiptið. Annað er óráðsía í landi sem getur auðveldlega boðið upp á fjölda sýnishorna af veðri innan sama sólarhrings.

Við getum heimfært þessar ferðaaðstæður yfir á atvinnulíf okkar litla lands. Dýrmæt eru störfin í smáu en knáu hagkerfi 370 þúsund einstaklinga þjóð. Krefjandi aðstæður fela meðal annars í sér; hið titrandi gengi krónunnar, alþjóðaumhverfinu sem við erum óhjákvæmilega og eðlilega þátttakendur í, sem og hvaða atvinnuvegi skal helst næra og efla innanlands svo okkur vegni sem best. Þetta er dásamlega spennandi ferðalag allra sem í landinu búa, en við þurfum að gæta að aðbúnaði atvinnulífsins. Við erum því miður vanbúin og getum auðveldlega bætt um betur.

Við erum með flís í fæti. Flís sem veldur okkur óþægindum og tefur okkur á atvinnugöngunni. Við gætum gengið skarpar, náð betri árangri og verið ánægðari ef við myndum fjarlægja flísina. Það þarf ekki nema eitt snöggt handtak og við höldum snarlega á flísinni í hendi og segjum sigri hrósandi: „þetta var nú mikill verkur yfir litlu spreki!“. Flísin er að sjálfsögðu jafnréttið sem við eigum eftir að raungera til fulls. Markvissar aðgerðir að því að velja fjölbreytni í atvinnulífinu eru flísatöngin sem mun grípa flísina föstum tökum og fjarlægja.

Fjölbreytt atvinnulíf sem einkennist af grósku, samhug og samstöðu um jafnan rétt óháð kyni, aldri, uppruna og aðstæðum, er gönguleið sem við eigum að velja. Fjarlægjum flísina og ferðumst farsællega saman í flotta landinu okkar.

Höfundur er eigandi Vinnupalla, fjárfestir og FKA kona.




Skoðun

Sjá meira


×