Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins þar sem haft er eftir Edward Argar heilbrigðisráðherra að innlögnum á sjúkrahús hafi fjölgað lítillega undanfarið, þá aðallega hjá fólki í aldurshópnum 35 til 65 ára sem enn er óbólusett.
Til stendur að slaka á sóttvarnaaðgerðum á mánudag í ljósi þess hversu vel hefur gengið að bólusetja í Bretlandi. Útbreiðsla nýja afbrigðisins veldur þó mörgum áhyggjum, þá sérstaklega sérfræðingum sem hafa hvatt fólk til þess að fara sér hægt þegar slakað verður á takmörkunum innanlands.

Bresku læknasamtökin hafa lýst yfir efasemdum um tilslakanir á þessum tímapunkti. Enn séu „lykilhópar“ samfélagsins óbólusettir, þ.e. yngra fólk, sem gætu enn komið af stað bylgju þrátt fyrir góðan gang í bólusetningum. Yfirvöld verði að fylgjast náið með stöðunni.
Þrátt fyrir efasemdir sérfræðinga sagði Boris Johnson forsætisráðherra í gær að núverandi tölfræði benti ekki til þess að ástæða væri til að fresta áformum um tilslakanir, en í næsta skrefi munu veitingastaðir og krár fá leyfi til þess að taka á móti gestum innandyra. Nýja afbrigðið gæti þó sett strik í reikninginn varðandi þær tilslakanir sem hafa verið boðaðar í kjölfar næstu.
„Þetta nýja afbrigði gæti raskað áformum okkar og gert okkur erfiðara fyrir í næsta skrefi í júní,“ sagði Johnson í gær. „Ég hvet alla til að fara varlega því þær ákvarðanir sem við tökum á næstu dögum munu hafa gífurleg áhrif á næstu vikur.“