Lífið

Maðurinn á bak við „Vi er røde, vi er hvide“ er fallinn frá

Atli Ísleifsson skrifar
Byrjunarlið danska landsliðsins fyrir leikinn gegn Vestur-Þjóðverjum á HM í Mexíkó 1986. Danir unnu leikinn 2-0 með mörkum frá Jesper Olsen og John Hartmann Eriksen.
Byrjunarlið danska landsliðsins fyrir leikinn gegn Vestur-Þjóðverjum á HM í Mexíkó 1986. Danir unnu leikinn 2-0 með mörkum frá Jesper Olsen og John Hartmann Eriksen. Getty

Danski tónlistarmaðurinn Michael Bruun er látinn, sjötugur að aldri. Bruun er einna þekktastur fyrir að hafa samið og framleitt lagið Re-Sepp-Ten, með laglínuna „Vi er røde, vi er hvide“ í viðlaginu. Lagið ómaði í kringum leiki danska landsliðsins á HM í knattspyrnu 1986 og raunar löngu eftir það og gerir enn.

Danskir fjölmiðlar greina frá því að Bruun hafi andast í gær.

Re-Sepp-Ten var samið í aðdraganda HM í Mexíkó 1986, en í textanum er að finna tilvitnanir í bæði sögur HC Andersen og danska landsliðið. Þannig er titill lagsins orðaleikur þar sem vísað er í uppskriftina að sigri og nafn þáverandi þjálfara landsliðsins, Sepp Piontek.

Bruun samdi lagið með þeim Jarl Friis-Mikkelsen og Henrik Bødtcher, en Bruun var einn framleiðandi. Í bakröddum var svo að finna Preben Elkjær og aðrar stjörnur danska landsliðsins á þeim tíma.

Danir slógu í gegn á HM í Mexíkó 1986, unnu alla leikina í riðlakeppninni þar sem þeir mættu Vestur-Þjóðverjum, Úrúgvæjum og Skotum. Muna margir eftir 6-1 sigri Dana á Úrúgvæjum þar sem Elkjær skoraði þrennu. Danir duttu þó úr fyrir Spánverjum í sextán liða úrslitum mótsins þegar þeir töpuðu 5-1.

Áður en til lagsins kom hafði Bruun starfað lengi sem tónlistarmaður og tónlistarframleiðandi og hafði samið fjölda vinsælla laga. Var hann meðal annars liðsmaður sveitanna Tøsedrengene og Ray-Dee-Ohh.

Bruun lætur eftir sig þrjú börn, þeirra á meðal dótturina Amalie, sem einnig er þekkt sem þungarokkstónlistarkonan Myrkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.