Erlent

Hermenn sendir til að hefta flæði fólks yfir landamærin í Ceuta

Samúel Karl Ólason skrifar
Þúsundir manna hafa farið frá Marokkó til Ceuta á síðustu dögum. Fólkið hefur synt eða gengið yfir á fjöru.
Þúsundir manna hafa farið frá Marokkó til Ceuta á síðustu dögum. Fólkið hefur synt eða gengið yfir á fjöru. AP/Bernat Armangue

Yfirvöld á Spáni hafa sent hermenn til Ceuta, yfirráðasvæði Spánar í Norður-Afríku eftir að metfjöldi flótta- og farandfólks kom þangað. Ráðamenn í Ceuta segja minnst sex þúsund manns hafa komið á svæðið frá Marokkó í dag.

Fólkið, þar af um 1.500 börn, synti fram hjá landamæragirðingum á svæðinu eða gekk yfir á fjöru, samkvæmt frétt BBC. Minnst einn hefur dáið við að reyna að komast til Ceuta.

Landamæraverðir í Marokkó eru sagðir hafa setið hjá og ekkert gert til að reyna að stöðva fólkið.

Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, hefur heitið því að ná aftur röð og reglu í Ceuta og er þegar búið að senda um 2.700 manns aftur til Marokkó. Þó ekki þá sem eru ólögráða.

Spænskir hermenn takast á við fólk sem hafði farið ólöglega inn á yfirráðasvæði Spánar í Norður-Afríku.AP/Bernat Armangue

Um tvö hundruð hermenn og tvö hundruð lögregluþjóna hafa verið sendir til aðstoðar við um 1.100 landamæraverði í Ceuta, þar sem um 80 þúsund manns búa.

El Pais segir flesta af þeim um átta þúsund manns sem hafi komið til Ceuta í dag og í gær vera frá Afríku, sunnan Sahara-eyðimerkurinnar. BBC segir þá hins vegar vera frá Marokkó.

Ceuta og Melilla, sem er einnig yfirráðasvæði Spánar í Norður-Afríku hafa dregið að sér mikinn fjölda farand- og flóttafólks frá Afríku.

Táragasi hefur verið beitt á landamærunum.AP/Bernat Armangue



Fleiri fréttir

Sjá meira


×