Erlent

Búið að útdeila 1,5 milljörðum skammta af bóluefnum gegn Covid-19

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Bólusett í Jóhannesarborg í Suður-Afríku.
Bólusett í Jóhannesarborg í Suður-Afríku. epa/Kim Ludbrook

Jarðarbúar hafa nú fengið rúmlega einn og hálfan milljarð skammta af bóluefni gegn kórónuveirunni. Þetta kemur fram í samantekt AFP fréttastofunnar.

Bóluefni hefur nú verið gefið í 210 löndum og landsvæðum og aðeins í ellefu löndum jarðar er bólusetning ekki enn hafin. 

En bóluefnið skiptist ekki jafnt á milli manna því þrjú ríki heims hafa fengið um 60 prósent allra þessara skammta. Það eru Kína, Bandaríkin og Indland. 

Þá er útbreiðsla bóluefnana innan hvers lands fyrir sig einnig mjög misjöfn. 

Í Ísrael er búið að bólusetja næstum sextíu prósent íbúa á meðan meðaltalið í Evrópu er þrjátíu og tvö prósent. 

Þegar kemur að faraldrinum sjálfum er staðan enn afar slæm á Indlandi, þar sem næstum 185 milljónir hafa fengið sprautu, sem er þó lítill hluti allra landsmanna sem telja 1,4 milljarða manna. 

Þar var óeftirsóknarvert met slegið á síðasta sólahring þegar 4.529 einstaklingar dóu af völdum veirunnar. Það er hæsta dánartala á einum sólarhring sem sést hefur í nokkru ríki jarðar, en áður höfðu flestir dáið á einum sólarhring í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×