Fótbolti

Müller og Hummels snúa aftur í þýska landsliðið og fara á EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thomas Müller setti upp sparibrosið eftir að hann var valinn aftur í þýska landsliðið.
Thomas Müller setti upp sparibrosið eftir að hann var valinn aftur í þýska landsliðið. twitter-síða thomas müller

Thomas Müller og Mats Hummels snúa aftur í þýska landsliðshópinn sem tekur þátt á EM í sumar.

Í mars 2019 tilkynnti Joachim Löw að Müller, Hummels og Jerome Boateng væru ekki lengur í plönum hans.

Honum hefur nú snúist hugur með Müller og Hummels og þeir fara með á EM sem verður síðasta stórmót Löws með þýska liðið.

Müller og Hummels voru báðir í þýska liðinu sem varð heimsmeistari í Brasilíu 2014. Müller hefur skorað 38 mörk í hundrað landsleikjum og Hummels hefur leikið sjötíu landsleiki og skorað fimm mörk.

Hinn átján ára Jamal Musiala, leikmaður Bayern München, er í þýska hópnum. Hann lék með yngri landsliðum Englands en valdi að spila fyrir Þýskaland.

Marc-André ter Stegen, markvörður Barcelona, er ekki í hópnum þar sem hann þarf að fara í aðgerð á hné.

Þýskaland er í riðli með Portúgal, Frakklandi og Ungverjalandi á EM. Íslendingar hefðu verið í riðlinum ef þeir hefðu unnið Ungverja í umspili um sæti á Evrópumótinu.

Þýskalandsmeistarar Bayern München eiga átta leikmenn í þýska EM-hópnum: Müller, Musiala, Manuel Neuer, Niklas Süle, Serge Gnabry, Leon Goretzka, Joshua Kimmich og Leroy Sané.

EM-hópur Þýskalands

Markverðir: Manuel Neuer, Bernd Leno, Kevin Trapp

Varnarmenn: Antonio Rüdiger, Mats Hummels, Robin Gosens, Matthias Ginter, Marcel Halstenberg, Lukas Klostermann, Robin Koch, Niklas Süle

Miðju- og sóknarmenn: Emre Can, Serge Gnabry, Leon Goretzka, Ilkay Gündogan, Kai Havertz, Jonas Hofmann, Joshua Kimmich, Toni Kroos, Thomas Müller, Jamal Musiala, Florian Neuhaus, Leroy Sané, Kevin Volland, Timo Werner




Fleiri fréttir

Sjá meira


×