Atvikið mátti sjá á flugratsjársíðunni Flightradar 24 en það gerðist yfir Hornafirði um hálffimmleytið, þegar þota Lavrovs átti eftir um hálftíma flug til Keflavíkur. Nægilegur hæðaraðskilnaður tryggði að engin hætta var á ferðum. Bandaríska herflutningaþotan var í 34 þúsund feta hæð en þota Lavrovs í 36 þúsund feta hæð þegar þær flugu yfir Hornafjörð.

Samkvæmt upplýsingum sem sjá má á Flightradar 24 var Galaxy-þotan að koma frá Zweibrücken-flugvellinum í Þýskalandi sem þjónaði áður sem herstöð Bandaríkjamanna og NATO. Ekki kemur fram hver áfangastaður bandarísku herþotunnar er en hún stefndi til norðvesturs í átt til Grænlands. Þota Lavrovs var hins vegar að koma frá Dúsjanbe, höfuðborg Tadsikistan.

Hvort tilviljun hafi ráðið þessu atviki eða hvort það hafi verið liður í einhverskonar kaldastríðsögrun skal ósagt látið. Þess má þó til gamans geta að Ilyushin IL-96-300 breiðþota Lavrovs er mun stærri en Boeing 757-þotan sem bandaríski utanríkisráðherrann Antony Blinken mætti á til Íslands. Lockheed C-5 Galaxy-risaþotan trompar hins vegar Ilyushin-þotuna enda stærsta þota bandaríska flughersins.