Innlent

Bólu­settir verða á­fram skimaðir á landa­mærum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Bólusettir verða áfram skimaðir á landamærum til 15. júní.
Bólusettir verða áfram skimaðir á landamærum til 15. júní. Vísir/Vilhelm

Bólusettir verða áfram skimaðir á landamærum og verður fyrirkomulag um tvöfalda skimun áfram óbreytt, að minnsta kosti til 15. júní. Er það meðal annars vegna þess að bólusettum á leið til landsins mun fjölga á næstunni.

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra eftir ríkisstjórnarfund fyrir stuttu. Skyldudvöl á sóttvarnahúsi vegna komu frá hááhættusvæði mun þá falla úr gildi 1. júní næstkomandi en sóttvarnahús munu áfram standa til boða.

„Við væntum þess að kröfur um sóttvarnahótel í núverandi mynd falli niður 1. júní og eftir það verði lögð til sóttvarnahótel fyrir þá sem ekki geta tekið heimasóttkví. Sömuleiðis mun bann við ónauðsynlegum ferðum falla niður 1. júní,“ sagði Katrín.

Fram kemur í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu að gert er ráð fyrir því að að minnsta kosti 60% þjóðarinnar hafi fengið minnst fyrri skammt bólusetningar fyrir 15. júní.

Þá tilkynnti Katrín að litakóðakerfi á landamærum, sem áður stóð til að taka í gild, verði ekki tekið til notkunar. Stefnt sé að því að aflétta aðgerðum á landamærum hraðar gagnvart öðrum löndum, óháð stöðu faraldurs í þeim.

„Við munum halda áfram tvöföldu skimuninni fyrir þá sem eru að koma hingað og eru ekki bólusettir og munum sömuleiðis halda áfram að skima bólusetta vegna þess að við viljum gæta varkárni. Við munum nýta PCR-prófin í þessum tilfellum og ég vænti þess að þetta verði unnið í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu til þess að tryggja skimunargetu,“ sagði Katrín.

Sóttvarnalæknir hefur þegar hafið viðræður við Íslenska erfðagreiningu um samstarf.

Stefnt er að því að hraðpróf verði notuð í stað PCR-prófa í meiri mæli vegna ferða úr landi, hvort sem þar eru Íslendingar sem ætla að ferðast út fyrir landsteinana eða erlendir ferðamenn sem hafa dvalið á Íslandi. Vinna við slíkt fyrirkomulag er í gangi í heilbrigðisráðuneytinu og verður kynnt á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×