Umfjöllun og viðtöl: HK - ÍA 1-3 | Fyrsti sigur Skaga­manna kominn í hús

Dagbjört Lena Sigurðardóttir skrifar
Skagamenn eru komnir á blað.
Skagamenn eru komnir á blað. Vísir/Vilhelm

ÍA tókst að sigra sinn fyrsta leik á tímabilinu en þeir mættu HK í Kórnum í hörkuleik. Þrátt fyrir að heimamenn voru meira með boltann unnu Skagamenn sannfærandi 3-1 sigur.

Leikurinn byrjaði strax af hörku þar sem HK-ingar fengu tvö færi strax á fyrstu mínútu leiksins. ÍA-ingar svara í sömu mynt og skiptast liðin á að sækja að marki andstæðinganna. Mikið fjör var í leiknum og voru ekki nema átta mínútur liðnar þegar Arnþór Ari Atlason hjá HK skorar og kemur heimamönnum yfir.

ÍA-ingar gáfust þó ekki upp á því að sækja að marki HK en á 24. mínútu brýtur Ásgeir Börkur Ásgeirsson á Morten Beck Andersen inni í teig HK og dæmt er víti. Þórður Þorsteinn Þórðarsson tekur það og skorar. Öruggt skot sem fer í stöngina og inn.

Síðustu mínútur fyrri hálfleiksins voru aðeins rólegri heldur en þegar leikurinn hafðist en höfðu heimamennirnir þó yfirhöndina mest megnis. Þegar tæpar tíu mínútur voru til hálfleiks meiðist Jón Arnar Barðdal sem lýkur leik og haltrar útaf. Lítið er um að vera þar til tíminn rennur út og fara liðin með 1-1 jafntefli inn í hálfleikinn.

Seinni hálfleikur byrjaði hægt en liðunum tókst þó að skapa sér einhver færi. HK náðu þó að sækja mun meira á mark Skagamanna en heimamennirnir ná ekki að nýta færin sín sem annaðhvort fara í ramman eða langt yfir markið. ÍA voru yfirvegaðir og vörðust vel gegn HK sem sótti á þá af mikilli baráttu.

Þegar rúmar 70 mínútur eru liðnar af leiknum verður HK-ingum vel brugðið þegar allt í einu fær Viktor Jónsson flotta stoðsendingu upp úr þurru frá Halli Flosasyni. Boltinn endar í netinu og skagamenn komnir 2-1 yfir. Mikill hiti verður í leikmönnum eftir markið og mátti sjá gulu spjöldin koma á færibandi.

Á fjórðu mínútu uppbótartíma fær Hallur Flosason beint rautt spjald eftir ljótt brot á Valgeiri Valgeirssyni. Skagamenn voru þó ekki hættir en tæpum tveimur mínútum síðar fær Ingi Þór Sigurðsson boltann en Arnar Freyr, markmaður HK var farinn úr markinu og nýtti Ingi Þór sér það en hann tók skotið af 40 metra færi og skoraði. Lokatölur 3-1 fyrir ÍA.

Af hverju vann ÍA?

Skagamenn börðust virkilega vel frá fyrstu mínútu og mátti aldrei sjá uppgjöf frá liðinu þrátt fyrir að hafa lent undir strax í byrjun leiks. Það mátti sjá mikinn karakter í öllu liðinu sem mættu sóknum HK vel. Bæði lið voru mjög þyrst í sigur en ÍA sýndu það meira í dag. ÍA-ingar gerðu margar skiptingar í dag og spiluðu þeir vel á öllu liðinu.

Hverjir stóðu upp úr?

Í liði skagamanna voru það markaskorararnir Þórður Þórðarson, Viktor Jónsson og Ingi Þór Sigurðsson sem stóðu upp úr. Einnig átti Ísak Snær Þorvaldsson flottan leik en hann átti nokkur góð færi og spilaði vel í vörninni.

Í liði HK átti Arnþór Ari Atlason góðan leik en hann skoraði eina mark HK í dag. Einnig átti Birnir Snær Ingason fínan leik en hann skapaði mörg færi fyrir sitt lið ásamt því að eiga mörg góð skot á markið.

Hvað gekk illa?

Eins og í síðustu leikjum tóks HK-ingum ekki að nýta færin sín þrátt fyrir að hafa verið með yfirhöndina í dag. Þrjú af skotum HK fóru í stöngina eða slánna og flest af öðrum færum fóru yfir eða framhjá markinu. Þeir áttu einnig á tímabilum erfitt með skyndisóknir ÍA og mátti sjá þá gefa upp öndina eftir annað mark Skagamanna.

Mikið var um spjöld í leiknum í dag en í liði ÍA voru það sex leikmenn sem fengu að líta gula spjaldið og fékk Hallur Flosason beint rautt spjald í uppbótartíma.

Hvað gerist næst?

ÍA fá Breiðablik í heimsókn á Skagann í næstu umferð deildarinnar á meðan HK-ingar fara á meistaravöllinn og mæta KR.

Lítið hægt að segja eftir svona leik

Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK.Stöð 2 Sport

„Það er lítið hægt að segja eftir svona leik. Við áttum töluvert af skotum og töluvert af færum. Þetta er einn af þessum fáu leikjum sem ég hef tekið þátt í þar sem við fáum tvö færi á móti okkur en engu að síður þrjú mörk á okkur, hvernig sem það er hægt. Það er bara hluti af þessu. Stundum fara úrslitin ekki endilega eftir gangi leiksins og við verðum bara að taka því, halda áfram og undirbúa okkur fyrir næsta leik.“

„Þeir eru aggressívir og þeir berjast um alla bolta og það var kannski eitthvað sem við vorum undir í dag, við vorum töluvert með boltann og létum hann ganga vel og sköpuðum færi en mér fannst aðeins vanta upp á baráttuna og stundum grimmdina úti á vellinum.“

„Það er bara næsti leikur fyrir okkur og við byrjum að undirbúa okkur fyrir hann á morgun. En það er ljóst að við þurfum allavega að fara að ná okkur í þrjú stig en það eru fáir leikir búnir og það er mikið eftir af mótinu svo ég er ekki farinn að hafa áhyggjur af neinu ennþá.“

Viktor Jónsson: Höfðum meiri trú á því að við myndum vinna

Viktor Jónsson í leik gegn FH.Vísir

„Ég er fyrst og fremst bara glaður, ógeðslega gaman að vinna og gott að fá fyrsta sigurinn í ár og skora fyrsta markið. Þetta var bara yndislegt. Við lögðum hart af okkur í dag og þetta var mjög sætt.“

ÍA-ingar fengu dæmd á sig sex gul spjöld í leiknum sem og eitt beint rautt spjal eftir að Hallur Flosason braut harkalega á Valgeiri Valgeirssyni.

„Spjöldin undirstrika bara baráttuna í okkur, við erum alltaf klárir í að fórna okkur og við ætluðum að ná í þessi stig. Ég er nú ekki viss um að þetta hafi verið endilega rautt spjald en svona er bara leikurinn og áfram gakk, bara sex gul spjöld og bara barátta.“

„Við vörðumst bara sem lið, þéttum vel að inni í boxinu og þeir fengu engin einhver svona dauðafæri fannst mér. En þeir slúttuðu vel þarna í fyrsta markinu og ég held að það hafi bara skapað þennan sigur hvað við börðumst vel sem lið og við höfðum líklega bara meiri trú á því að við myndum vinna.“


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira