Formannafundur SGS var haldinn í dag og sendi sambandið frá sér tilkynningu eftir hann þar sem miklum áhyggjum var lýst yfir með framkvæmd á útfærslu styttingar vinnuvikunnar.
„Samantekin tölfræði sýnir að starfsfólk á skrifstofum semur um fulla styttingu án teljandi vandkvæða en starfsfólk í leik- og grunnskólum og slíkum störfum fái litla eða enga styttingu. Ríki og Reykjavíkurborg hafa staðið sig betur,“ segir í tilkynningunni.
„Fundurinn skorar á Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélögin að hysja upp um sig buxurnar og standa við gerðan kjarasamning.“
Úr 40 í 36
Skrifað var undir kjarasamningana í byrjun árs 2020. Þar var kveðið á um styttingu vinnuvikunnar, sem verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir í áratugi. Vinnuvikan hefur verið 40 stundir í nærri hálfa öld en samningarnir kveða á um 36 klukkustunda vinnuviku.
Innleiðing breytinganna í dagvinnu tóku gildi 1. janúar í ár og á hún nú að vera komin til framkvæmda. Samkvæmt SGS hefur þessu þó ekki verið fylgt eftir af sveitarfélögunum. „Í þeirri vinnu skiptir öllu máli að opinberir vinnuveitendur standi við kjarasamninginn og tryggi launafólki þá styttingu sem um var samið.“
Tilkynningin í heild sinni:
Sveitarfélögin fá falleinkun – vegna styttingar vinnuvikunnar í dagvinnu
Verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir því í áratugi að vinnuvikan verði stytt hjá launafólki. Í kjarasamningum við ríki og sveitarfélög sem undirritaðir voru 2020 voru stigin þýðingarmikil skref til styttingar vinnuvikunnar.
Innleiðing þeirra breytinga í dagvinnu sem tóku gildi 1. janúar 2021 á nú að vera komin til framkvæmda. Í þeirri vinnu skiptir öllu máli að opinberir vinnuveitendur standi við kjarasamninginn og tryggi launafólki þá styttingu sem um var samið.
Formannafundur SGS haldinn í Mývatnssveit, 20. – 21 maí 2021, lýsir yfir miklum áhyggjum með framkvæmd á útfærslu styttingar vinnuvikunnar hjá sveitarfélögunum um land allt. Sambands íslenskra sveitarfélaga og sveitafélögin vítt og breytt um landið hafa ekki sinnt verkefninu og fá algera falleinkun.
Samantekin tölfræði sýnir að starfsfólk á skrifstofum semur um fulla styttingu án teljandi vandkvæða en starfsfólk í leik- og grunnskólum og slíkum störfum fái litla eða enga styttingu. Ríki og Reykjavíkurborg hafa staðið sig betur. Fundurinn skorar á Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélögin að hysja upp um sig buxurnar og standa við gerðan kjarasamning.