Fótbolti

Rosengård með fullt hús | Jafnt í Íslendingaslag

Valur Páll Eiríksson skrifar
Glódís Perla fer fyrir vörn sem hefur aðeins fengið á sig eitt mark í sex leikjum.
Glódís Perla fer fyrir vörn sem hefur aðeins fengið á sig eitt mark í sex leikjum. Chelsea FC via Getty Images

Rosengård vann 1-0 sigur á Piteå í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag þar sem Glódís Perla Viggósdóttir spilaði allan leikinn í vörn liðsins. Kristianstad og AIK skildu jöfn 1-1.

Kristianstad missti Häcken, lið Diljár Ýrar Zomers, upp fyrir sig í annað sæti deildarinnar í gær og þurfti sigur til að endurheimta sætið. Liðið var án Sveindísar Jane Jónsdóttur vegna meiðsla en Sif Atladóttir byrjaði leikinn, líkt og Hallbera Guðný Gísladóttir sem var í liði AIK.

Kristianstad byrjaði betur er Amanda Edgren kom liðinu í forystu á 20. mínútu en Nora Rönnfors jafnaði hins vegar fyrir AIK aðeins þremur mínútum síðar. Þrátt fyrir tilraunir beggja liða fjölgaði mörkunum ekki frekar og 1-1 jafntefli niðurstaðan.

Glódís Perla Viggósdóttir var að venju í byrjunarliði Rosengård sem er á mikilli siglingu. Goðsögnin Caroline Seger skoraði eina mark liðsins í 1-0 sigri á Piteå í dag og er Rosengård með fullt hús, 18 stig eftir sex leiki. Liðið hefur jafnframt aðeins fengið á sig eitt mark í leikjunum sex.

Fimm stigum á eftir liðinu er Häcken með 13 stig í öðru sæti, Kristianstad kemur þar á eftir með 12 stig, stigi á undan Linköping. AIK er með sex stig í 9. sæti, fimm stigum frá Växsjö sem er í 12. sætinu, botnsætinu, sem er jafnframt eina fallsætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×