Þessu verður svarað í Þriðjudagsfyrirlestri HR og Vísis, en þar munu þau Ingibjörg Birna Kjartansdóttir og Haraldur Arnórsson, stundakennarar við iðn- og tæknifræðideild HR, fjalla um það hvernig notkun stafrænnar tækni og upplýsingalíkana í mannvirkjagerð geti mætt áskorunum í byggingariðnaði.
Fyrirlesturinn hefst klukkan 12 og stendur til 13, en hægt verður að fylgjast með útsendingunni í spilara að neðan.
Rannsóknir benda til að helstu áskoranir byggingariðnaðarins séu skortur á skilvirkum samskiptum, þar sem mikill tími fer í að búa til upplýsingar, finna þær og deila þeim á milli aðila, ásamt því að uppfæra þær, aðlaga og samræma.
Haraldur og Ingibjörg starfa hjá tveimur af stærstu verktökum á Íslandi og eru einnig kennarar á nýrri hagnýtri braut í HR, upplýsingatækni í mannvirkjagerð. Þau halda þriðjudagsfyrirlestur HR og Vísis þar sem þau fjalla um áskoranir í byggingariðnaði og hvernig notkun stafrænnar tækni og upplýsingalíkana í mannvirkjagerð (e. Building Information Modelling, BIM) getur mætt þessum áskorunum. Einnig verður farið yfir ýmsar nýjungar sem eru nú þegar í notkun og spáð í hvað framtíðin ber í skauti sér.