Verulega var slakað á reglum um grímuskyldu þegar ný reglugerð um takmarkanir á samkomum tók gildi á miðnætti. Þannig er ekki lengur grímuskylda í verslunum og á vinnustöðum. Grímuskylda er þó enn í gildi við tilteknar aðstæður og ræðst hún af því hvort hægt sé að halda nálægðarmörk.
Farið er yfir hvenær ber að nota grímu og hvenær ekki á nýrri upplýsingasíðu ráðuneytisins þar sem helstu spurningum um grímunotkun er svarað.
Þar kemur meðal annars fram að tveggja metra nálægðarmörk séu í gildi á samkomum sem falla ekki undir reglu um sitjandi viðburði, öllum vinnustöðum og allri annarri starfsemi, þar á meðal verslunum og heilsu- og líkamsræktarstöðvum.
Eins metra nálægðarmörk gilda í skólastarfi, á sitjandi viðburðum, á veitingastöðum og sund- og baðstöðum.
Kennarar þurfa að nota grímu í samskiptum við nemendur þar sem ekki er hægt að tryggja eins metra nálægðartakmörk en börn sem eru fædd árið 2005 og síðar þurfa ekki að nota grímu í grunnskólum.
Í framhaldsskólum þurfa nemendur og kennarar að nota grímu þar sem ekki er hægt að halda metra fjarlægð, þar á meðal í verklegri kennslu, listkennslu og kennslu nemenda á starfsbrautum.
Grímuskylda er áfram í almenningsamgöngum, leigubifreiðum og hópbifreiðum þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra nálægðarmörk. Sömuleiðis á hárgreiðslustofum, snyrtistofum, nuddstofum og sambærilegri starfsemi þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra nálægðarmörk.
Einnig er grímuskylda á sitjandi viðburðum, þar á meðal á íþróttaviðburðum og í leikhúsum nema þegar fólk neytir drykkja eða neysluvöru og við athafnir trúar- og lífsskoðunarfélaga.
Alls staðar þar sem ekki er gerð krafa um grímunotkun er hún enn valfrjáls.