Þau Roman Protasevíts og Sofía Sapega eru nú í haldi lögreglu í Minsk en þau hafa verið áberandi í gagnrýni á ríkisstjórn Alexanders Lúkasjenka, sem gjarnan er kallaður síðasti einræðisherra Evrópu.
Leiðtogar Evrópuríkja hafa gagnrýnt stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi harðlega fyrir hið meinta flugrán og í yfirlýsingu frá Norður-Atlantshafsráðinu í dag var aðgerðin sögð hættulegt brot á alþjóðalögum.
Í stuttu máli taldi ráðið að þetta framfæri væri með öllu óásættanlegt og ekki í samræmi við alþjóðalög. Það setti líf og öryggi farþega í hættu. Ráðið kallaði eftir að stjórnarandstæðingar verði leystir úr haldi tafarlaust og óháð rannsókn fari fram á þessu máli,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Evrópusambandið hyggst innleiða nýjar refsiaðgerðir gegn Hvítrússum og Guðlaugur Þór segir frekari viðbrögð við málinu til umræðu. Frakklandsforseti sagðist í gær hreinlega ekki viss um hvort refsiaðgerðir og þvinganir beri nokkurn árangur. Erfitt sé að finna réttu lausnina.
„Refsiaðgerðirnar sem var farið í hafa ekki borið þann árangur sem við vildum sjá. Hins vegar er mikilvægt að það séu viðbrögð. Hver eru bestu viðbrögðin er eitthvað sem þarf alltaf að skoða en engin viðbrögð senda líka skilaboð um að þetta sé ásættanlegt og hafi engar afleiðingar í för með sér. Ef það er gert er hætt við því að þetta haldi áfram og menn gangi ennþá lengra,“ segir Guðlaugur Þór.