Fótbolti

13 dagar í EM: 399 dagar á milli þess að fyrsta og síðasta þjóðin tryggðu sig á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Romelu Lukaku fer hér fyrir fagnaðarlátum belgíska landsliðsins eftir að liðið hafði tryggt sig inn á EM í október 2019.
Romelu Lukaku fer hér fyrir fagnaðarlátum belgíska landsliðsins eftir að liðið hafði tryggt sig inn á EM í október 2019. Getty/Vincent Van Doornick

Vísir telur niður í Evrópumótið í knattspyrnu sem hefst 11. júní næstkomandi. Það leið meira en ár á milli þess að fyrsta þjóðin tryggði sig sér þátttökurétt á EM alls staðar og þar til að 24 þjóða hópur keppninnar var fullskipaður.

Undankeppni Evrópumótsins hófst í mars 2019 og átti að enda með umspilsleikjum ári síðar. Kórónuveiran seinkaði ekki aðeins úrslitakeppninni heldur einnig því að 21., 22., 23. og 24. þjóðin tryggði sig inn á EM.

Belgar voru fyrstir til að tryggja sér sæti á EM en því náðu þeir 10. október 2019 með 9-0 sigri á San Marinó. Það voru þrjár umferðir eftir að riðlakeppninni en Belgar voru búnir að vinna alla sjö leiki sína og voru öruggir inn.

Það liðu aðeins tveir dagar þar til að Ítalir bættust í hópinn og daginn eftir þá voru þjóðirnar orðnar fjórar því Rússland og Pólland tryggðu farseðla sína 13. október 2019.

Þegar októberglugginn var á enda þá höfðu Úkraínumenn og Spánverjar einnig klárað dæmið og komist inn á mótið sem átti að fara fram sumarið eftir. Sex þjóðir voru því öruggar með sæti sitt þegar tvær umferðir voru eftir af riðlakeppninni.

Fjórtán þjóðir til viðbótar bættust við í nóvemberglugganum þegar riðlakeppninni lauk. Þá voru bara fjögur laus sæti. Þau átti að spila um í umspilsleikjum sem áttu að fara fram í mars.

Ekkert varð þó að umspilinu í mars vegna kórónuveirunnar og umspilið fór ekki fram fyrr en í október og nóvember 2020.

Síðustu fjórar þjóðirnar tryggðu sig inn á Evrópumótið 12. nóvember 2020 eða 399 dögum eftir að Belgar höfðu gulltryggt sitt sæti. Þetta voru Norður-Makedónía. Ungverjaland, Slóvakía og Skotland.

Skotar voru 24. og síðasta þjóðin inn eftir að hafa unnið Serba í vítaspyrnukeppni í hreinum úrslitaleik.

Dagarnir þegar þjóðirnar tryggðu sig inn á EM 2021

  • 10. október 2019
  • Belgía (Þjóð núemer 1 inn)
  • 12. október 2019
  • Ítalía (2)
  • 13. október 2019
  • Rússland (3)
  • Pólland (4)
  • 14. október 2019
  • Úkraína (5)
  • 15. október 2019
  • Spánn (6)
  • 14. nóvember 2019
  • Frakkland (7)
  • Tyrkland (8)
  • England (9)
  • Tékkland (10)
  • 15. nóvember 2019
  •  Finnland (11)
  • Svíþjóð (12)
  • 16. nóvember 2019
  •  Króatía (13)
  • Austurríki (14)
  •  Holland (15)
  • Þýskaland (16)
  • 17. nóvember 2019
  • Portúgal (17)
  • 18. nóvember 2019
  • Sviss (18)
  • Danmörk (19)
  • 19. nóvember 2019
  • Wales (20)
  • 12. nóvember 2020
  • Norður-Makedónía (21)
  • Ungverjaland (22)
  • Slóvakía (23)
  • Skotland (24)

EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×