Erlent

Höfðu hendur í hári her­mannsins

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Til skotbardaga kom milli mannsins og lögreglu.
Til skotbardaga kom milli mannsins og lögreglu. Getty

Lögregla í suðvesturhluta Frakklands hefur náð manni sem stórfelld leit hafði verið gerð að síðan á laugardag, eftir að hann skaut í átt að lögreglumönnum sem höfðu afskipti af honum vegna heimilisofbeldis.

Maðurinn hafði í kjölfarið flúið inn í nærliggjandi skóg, vopnaðir hnífi og veiðiriffli. Yfir 300 lögreglumenn tóku þátt í leitinni að manninum, sem er fyrrverandi hermaður og var talinn afar hættulegur. Meðal annars var stuðst við þyrlur og fjóra brynvarða bíla við leitina.

Sérstök viðvörun var gefin út vegna mannsins og var fólki í bænum Le Lardin-Saint-Lazare í Dordogne-héraði ráðlagt að halda sig frá manninum kæmi það auga á hann, þar sem hann væri einstaklega hættulegur.

Til skotbardaga milli mannsins og sérsveitarlögreglumanna kom þegar hann fannst í skóginum. Maðurinn, sem er 29 ára og heitir Terry Dupin, var skotinn og í kjölfarið handtekinn.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að Dupin hafi verið alvarlega særður eftir skotbardagann. Sjálfur hafi hann skotið þó nokkrum sinnum að lögreglu áður en hann var hæfður.

Mannsins var leitað í grennd við Le Lardin-Saint-Lazare.Datawrapper



Fleiri fréttir

Sjá meira


×