„Opið Rússland“ var stofnað af Khodorkovsky í útlegð í Bretlandi. Rússnesk stjórnvöld lýstu samtökin „óæskilegt“ og bönnuðu í reynd starfsemi þeirra árið 2017. Engu að síður hafa bandamenn samtakanna í Rússlandi reynt að halda starfi þeirra áfram undir sama nafni en formlega ótengt upphaflegu samtökunum til þess að komast hjá saksókn.
Reuters-fréttastofan hefur eftir OVD-info, hópi sem fylgist með lögregluaðgerðum gegn stjórnarandstæðingum í Rússlandi, að Andrei Pivovarov, fyrrverandi forsvarsmaður Opins Rússlands hafi verið færður úr flugvél í Pétursborg og handtekinn í gær.
Pivovarov segir sjálfur að flugvélin hafi verið á leiðinni út á flugbraut til flugtaks þegar vélin var stöðvuð. Á Twitter-síðu hans kom fram að hann hafi verið færður rannsóknarlögreglunni til yfirheyrslu vegna gruns um að hann stýrði óæskilegum samtökum, að sögn AP-fréttastofunnar.
Um tvö hundruð sveitarstjórnarmenn sem tóku þátt í ráðstefnu á vegum Opins Rússlands voru handteknir stuttlega í mars.
Um þrjátíu hópar hafa verið bannaðir í Rússlandi á grundvelli laga um óæskileg samtök frá því að þau voru samþykkt árið 2015. Allt að sex ára fangelsi liggur við því að stýra slíkum samtökum.
Khodorkovsky fór í útlegð til London eftir að honum var haldið í fangelsi í tíu ár í heimalandinu. Almennt er talið að fangelsisrefsing hans hafi verið pólitískt hefnd vegna þess að hann storkaði veldi Vladímírs Pútín forseta.
Húsleit á heimili fyrrverandi þingmanns og bandamanna
Undanfarnar vikur hafa rússnesk yfirvöld gengið hart fram gegn stjórnarandstöðu- og andófsfólki, ekki síst bandamönnum Alexeis Navalní, eins helsta leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sem dúsir sjálfur í fangelsi. Lögregla gerði húsleit á heimili Dmitry Gudkov, fyrrverandi stjórnarandstöðuþingsmanns sem hyggur á framboð í september, og tveggja samstarfsmanna hans í dag.
AP segir að talið sé að aðgerðunum sé ætlað að koma í veg fyrir að stjórnarandstaðan í landinu geti veitt Sameinuðu Rússlandi, flokki Pútín forseta, keppni í þingkosningunum í haust. Vinsældir flokksins hafa dalað nokkuð vegna efnahagsþrenginga í kórónuveirufaraldrinum.
Saksóknari krefst þess nú að samtök Navalní gegn spillingu og svæðisskrifstofur þeirra verði lýst öfgasamtök og starfsemi þeirra bönnuð. Rússneska þingið hefur einnig til meðferðar frumvarp sem myndi banna hverjum þeim sem er félagi í öfgasamtökum, styrkir þau fjárhagslega eða styður að bjóða sig fram til opinbers embættis. Verði frumvarpið að lögum yrði bandamönnum Navanlí bannað að bjóða sig fram til þings í haust.