Þrátt fyrir ungan aldur hafa þeir víðtæka reynslu af tónlist, dansi og leiklist. Þeir spila báðir á gítar og sömdu lagið Alla leið á gítar en Halldór Fjallabróðir sá um upptökur í stúdíói. Valgeir í Mammút spilaði þar á trommur í laginu.
„Þetta er indípopprokkblanda,“ sögðu strákarnir um lagið í Bítinu á Bylgjunni. Á meðal þeirra fyrirmynda í tónlist eru Jón Jónsson, Friðrik Dór og Ingó Veðurguð.
Jón Arnór hefur leikið fyrir Krakka RÚV, í söngleiknum Matthildi, söngleiknum Kardimommubænum, sjónvarpsþáttunum Ófærð og svo var hann í öðru sæti fyrstu þáttaröð af Ísland Got Talent. Í framhaldinu hélt hann töfrasýningar víðsvegar um landið á bæjarhátíðum, árshátíðum og fjölskylduskemmtunum.
Baldur lék líka í Matthildi og fyrir Krakka RÚV ásamt því að hafa farið með hlutverk í kvikmyndinni Víti í Vestmannaeyjum og fleiri verkefnum. Hann leikur nú í Níu líf og fer þar með hlutverk Bubba á yngri árum. Einnig hefur hann talsett í Disney teiknimynd og teiknimyndir eins og Hvolpasveitina. Báðir hafa þeir verið í Sönglist í Borgarleikhúsinu.
Lagið Alla leið er komið á Spotify en var líka spilað í Bítinu þegar Jón Arnór og Baldur mættu þangað í viðtal og má hlusta á það í spilaranum hér fyrir neðan.