Lífið

Fyrrverandi ráðherra myndar nýbakaðan franskan riddara

Jakob Bjarnar skrifar
Guðni Ágústsson myndar Egil Helgason og hina frönsku orðu sem sjónvarpsmanninum var veitt fyrir góð störf í þágu frönsku þjóðarinnar.
Guðni Ágústsson myndar Egil Helgason og hina frönsku orðu sem sjónvarpsmanninum var veitt fyrir góð störf í þágu frönsku þjóðarinnar. Jón Mýrdal

Það hljóp á snærið hjá veitingamanninum Jóni Mýrdal sem átti leið um Skólavörðustíginn í morgun.

Jón birti einstæða mynd í Facebookhópnum „Frægir á ferð“ en þar keppast meðlimir við að ná myndum af frægu fólki sem verður á vegi þeirra í daglega lífinu. Mynd Jóns þykir slá flest það út sem áður hefur birst í hópnum.

Jón átti leið um Skólavörðustíginn og þá sér hann sér til nokkurrar furðu hvar Egill Helgason sjónvarpsmaður stillir sér upp með nýja orðu sem honum var afhent við hátíðlega athöfn í franska sendiráðinu í vikunni.

Ef til vill ekki í frásögur færandi í sjálfu sér að Egill sitji fyrir á mynd en það sem Jóni þótti tíðindum sæta, eða öllu heldur punkturinn yfir i-ið, var hver var við að mynda.

„Mögnuð tvenna. Egill Helgason stillir sér upp með nýju orðuna og sjálfur Guðni Ágústsson tekur mynd,“ segir Jón. Guðni er fyrrverandi landbúnaðarráðherra og yfirleitt er það nú svo að sjónvarpsmenn beina kastljósinu að ráðherrum en ekki öfugt.

„Ég mæti alltaf á morgnana í Kaffifélagið við Skólavörðustíg. Egill var ekkert að flagga orðunni og ég held að Guðni hafi þurft að suða í honum til að fá að taka mynd. En Egill var með orðuna á sér fyrir tilviljun,“ segir Jón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×