Viðskipti innlent

Stærð ferða­þjónustunnar á­stæða lengra bata­ferlis

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Gylfi Magnússon, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.
Gylfi Magnússon, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. vísir/Egill Aðalsteinsson

Prófessor í hag­fræði við Há­skóla Ís­lands gerir ráð fyrir því að hlutur ferða­þjónustunnar í hag­kerfi landsins sé helsta á­stæða þess að OECD spái Ís­landi svo hægum bata úr efna­hags­kreppu far­aldursins.

OECD birti í gær skýrslu þar sem því er spáð að ekkert þróað ríki verði jafn lengi að endur­heimta fyrri efna­hags­styrk eftir heims­far­aldurinn og Ís­land. Þar er stuðst við verga lands­fram­leiðslu sem mæli­kvarða. Ísland á ekki að ná sömu vergu landsframleiðslu og landið var með fyrir faraldurinn fyrr en á síðari helmingi ársins 2023.

Gylfi Magnús­son, prófessor í hag­fræði, var ekki búinn að lesa skýrsluna ítar­lega þegar Vísir ræddi við hann en finnst blasa við að ferða­þjónustan sé helsta á­stæðan fyrir hægum efna­hags­bata:

„Ís­land reiðir sig í ó­venju miklum mæli á ferða­þjónustu og hún hefur auð­vitað komið mjög illa út úr far­aldrinum alls staðar. Endur­heimt fyrri stöðu á Ís­landi byggir auð­vitað mjög mikið á því hvernig gengur með ferða­þjónustuna. Þannig það er nú væntan­lega lykil­for­sendan í þessum út­reikningum OECD.“

Áframhaldandi atvinnuleysi

Í skýrslunni er gert ráð fyrir miklu at­vinnu­leysi á Ís­landi, líka á næsta ári þegar það á að minnka úr 8 prósentum niður í 7,6 prósent. Í ríkjum sem eiga að ná sömu vergu lands­fram­leiðslu og þau voru með fyrir far­aldurinn á næstu mánuðum verður at­vinnu­leysið mun minna. Á næsta ári er til dæmis gert ráð fyrir 4 prósent at­vinnu­leysi í Noregi en 4,3 prósent í Banda­ríkjunum.

„At­vinnu­leysið hefur náttúru­lega á­hrif á þessar helstu hag­stærðir,“ segir Gylfi. „Ferða­þjónustan er mjög mann­afla­frek grein sem þýðir auð­vitað að sam­dráttur í henni hefur mikil á­hrif á at­vinnu­stig og það er þá lengi að jafna sig.“

Hann segir eðli­legt að Noregur og Banda­ríkin nái sér hratt upp úr far­aldrinum, því þar sé tak­mörkuð ferða­þjónusta í hlut­falli við stærð hag­kerfis landanna. „Svo er væntan­lega gert ráð fyrir því að nánast allar aðrar at­vinnu­greinar komist aftur í nokkuð eðli­legt stand á næsta ári.“

Erfitt að ná aftur sama árangri

Gylfi nefnir þá að einnig mega hafa í huga að fyrir far­aldurinn var hag­kerfi Ís­lands þegar komið í nokkra kólnun. „Ef maður horfir aftur til ársins 2019 þá var það sam­dráttar­ár. Það voru svona ýmis vanda­mál í ferða­þjónustu; WOW varð gjald­þrota og greinin átti al­mennt í ein­hverri varnar­bar­áttu.“ Það geti verið ein á­stæða þess að OECD gerir ekki ráð fyrir því að greinin nái sér mjög hratt á strik aftur.

„Svo veit maður reyndar ekkert hvort þeir hafi eitt­hvað gert ráð fyrir að­dráttar­afli vegna eld­gossins en það getur auð­vitað haft ein­hver já­kvæð á­hrif,“ segir Gylfi.

Einnig geti það haft á­hrif á spánna að mikið vaxtar­skeið í efna­hags­kerfi landsins hafi verið að ljúka ein­mitt þegar far­aldurinn skall á og lands­fram­leiðslan verið mjög mikil á síðustu árum. „Það skeið kom auð­vitað í kjöl­far vand­ræðanna í hruninu og það er kannski erfitt að ná aftur upp dampi þegar við­miðið er lands­fram­leiðsla sem hafði vaxið svona svaka­lega.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×