Umfjöllun: Færeyjar - Ísland 0-1 | Mikael tryggði Íslendingum sigur í Þórshöfn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mikael Neville Andersson skoraði eina mark leiksins á Tórsvelli.
Mikael Neville Andersson skoraði eina mark leiksins á Tórsvelli. vísir/vilhelm

Fyrsta landsliðsmark Mikaels Neville Andersson tryggði Íslandi sigur á Færeyjum, 1-0, í vináttulandsleik á nýuppgerðum Tórsvelli, þjóðarleikvangi Færeyinga í kvöld.

Þetta var 26. leikur þjóðanna og 24. sigur Íslendinga. Hann var torsóttur en íslenska liðið sýndi ekki sínar bestu hliðar í leiknum í kvöld.

Mikael kom inn á sem varamaður á 62. mínútu og átta mínútum síðar skoraði hann eina mark leiksins eftir undirbúning Birkis Bjarnasonar og Alberts Guðmundssonar.

Þetta var annar leikur íslenska liðsins af þremur í þessari landsleikjahrinu en það tapaði fyrir Mexíkó, 2-1, um helgina. Þriðji og síðasti leikurinn er gegn Pólverjum í Poznán á þriðjudaginn.

Undir pari

Frammistaða íslenska liðsins í kvöld var ekki burðug og það færeyska var heilt yfir sterkari aðilinn.

Færeyingar virtust hafa skýrari og betri hugmynd um það hvað þeir ætluðu að gera í leiknum, sérstaklega með boltann. Þeir héldu honum vel og áttu ekki í miklum vandræðum með að leysa slaka pressu Íslendinga.

Færeyjar ógnuðu þó ekki mikið í leiknum, fyrr en í lokin, og íslenska vörnin stóð vaktina að mestu vel. Brynjar Ingi Bjarnason lék vel og fylgdi eftir góðri frammistöðu gegn Mexíkó. Hjörtur Hermannsson átti einnig góðan leik við hlið Brynjars í miðri vörninni. Ögmundur Kristinsson kom íslenska liðinu svo til bjargar þegar hann varði frá Klæmint Olsen fimm mínútum fyrir leikslok.

Betri í byrjun

Færeyingar byrjuðu leikinn mun betur, héldu boltanum vel og þjörmuðu að íslensku vörninni. Brandur Olsen, fyrrverandi leikmaður FH, átti gott skot á 4. mínútu en Ögmundur varði vel.

Færeyska liðið fékk fjórar hornspyrnur á fyrstu tíu mínútum leiksins og eftir eina þeirra fékk Odmar Færø gott færi eftir að Ögmundur greip í tómt en skallaði framhjá.

Íslendingar sóttu aðeins í sig veðrið eftir þessa erfiðu byrjun og á 22. mínútu fékk Kolbeinn Sigþórsson dauðafæri. Birkir sendi þá fyrir frá hægri á Kolbein sem var einn og óvaldaður í vítateignum en skaut beint á Teit Gestsson í færeyska markinu.

Eftir ágætis kafla íslenska liðsins um miðbik fyrri hálfleiks náðu það færeyska aftur yfirhöndinni. Heimamenn fengu engin teljandi færi það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en voru betra liðið á vellinum.

Staðan í hálfleik var markalaus og framan af seinni hálfleik gerðist ekkert markvert. Hvorugt liðið fékk teljandi færi og leikurinn var mjög hægur.

Frábært mark

Þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka kom eina mark leiksins. Ísland átti þá góða skyndisókn, Birkir bar boltann fram og sendi á Albert sem kom inn á í hálfleik. 

Albert skallaði boltann fyrir Mikael sem skoraði með vinstri fótar skoti á lofti í fjærhornið. Laglegt mark og það kom eftir langbestu sókn Íslands í leiknum.

Eftir þetta settu Færeyingar meira púður í sóknina og freistuðu þess að jafna metin. Þeir ógnuðu ekki mikið og íslenska vörnin þurfti ekki að hafa mikið fyrir að halda heimamönnum í skefjum, ekki fyrr undir lokin.

Ágjöf á lokamínútunum

Færeyingar fengu dauðafæri á 85. mínútu. Varamaðurinn Jákup Johansen sendi þá á annan varamann, Klæmint, sem var í frábærri stöðu í vítateignum en Ögmundur varði vel með fætinum.

Í uppbótartíma átti Brandur fast skot beint úr aukaspyrnu. Ögmundur varði en missti boltann frá sér fyrir fætur Odmars sem skoraði. Boltinn hafði hins vegar viðkomu í samherja hans, Heina Vatnsdal, sem var rangstæður. Skömmu síðar átti Brandur skalla sem Brynjar Ingi bjargaði nánast á marklínu.

Þrátt fyrir þetta áhlaup Færeyinga náðu þeir ekki að bjarga stigi sem þeir áttu skilið út úr leiknum og íslenskur sigur staðreynd.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira