Erlent

Stjórn­mála­menn ekki lengur undan­þegnir banni við hatur­s­orð­ræðu

Kjartan Kjartansson skrifar
Fram að þessu hafa stjórnmálamenn í reynd verið undanþegnir ýmsum notendaskilmálum Facebook sem sauðsvartur almúginn þarf að sæta.
Fram að þessu hafa stjórnmálamenn í reynd verið undanþegnir ýmsum notendaskilmálum Facebook sem sauðsvartur almúginn þarf að sæta. Vísir/EPA

Samfélagsmiðlarisinn Facebook ætlar ekki lengur að líta fram hjá því ef stjórnmálamenn brjóta skilmála miðilsins sem banna hatursorðræðu. Fyrirtækið ætlar þó áfram að gera undantekningu ef ummæli stjórnmálamannanna þykja sérstaklega fréttnæm.

Facebook og fleiri samfélagsmiðla hafa lengi legið undir gagnrýni fyrir að sýna hatursorðræðu og upplýsingafalsi of mikið langlundargeð. Þannig hefur Facebook lengi gert undanþágu fyrir stjórnmálamenn þegar kemur að banni við hatursorðræðu vegna þess að ummæli þeirra séu í eðli sínu fréttnæm.

Nokkur breyting varð á þegar Facebook ákvað að setja Donald Trump, þáverandi Bandaríkjaforseta, í ótímabundið bann eftir að hann nýtti miðilinn til þess að hvetja til árásar á bandaríska þinghúsið í janúar.

Washington Post segir nú að Facebook ætli sér að hætta að vega mögulegt fréttnæmi ummæla stjórnmálamanna upp á móti skaðanum sem þau valda. Það ætli ekki að líta algerlega fram hjá því hvort að ummæli séu fréttnæm heldur birta opinberan fyrirvara ef það ákveður að leyfa ummælum sem stangast á við skilmála miðilsins að standa.

Breytingin er sögð á meðal viðbragða stjórnenda Facebook við tillögum sérstaks eftirlitsráðs samfélagsmiðilsins. Sú nefnd fór yfir hvort að ákvörðun Facebook um að sparka Trump af miðlinum hefði verið réttmæt en vísaði því að lokum aftur til stjórnenda fyrirtækisins. Mælti nefndin jafnframt með því að Facebook ynni skýrslu um hlut sinn í árásinni á bandaríska þinghúsið og gerði breytingar á undanþágunni um hatursorðræðu þegar hún teldist fréttnæm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×